08.01.1945
Neðri deild: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

233. mál, róðrartími fiskibáta

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Mér hefur af sjútvn. verið falið að lýsa þessu frv., og er þar að sjálfsögðu rétt að benda til þess, sem segir í grg. frv., sem flutt er eftir tilmælum hæstv. ríkisstj., og fylgir því svo hljóðandi grg. frá henni: „Vegna þess að fiskimiðin í og utan við Faxaflóa notast nú ekki eins og áður vegna hernaðaraðgerða, ber brýna nauðsyn til, að hagnýting þess svæðis, sem opið er, fari skipulega fram. Er sérstaklega nauðsynlegt, að fiskibátarnir leggi lóðir sínar samtímis, og er það höfuðtilgangur frv. að tryggja þetta.“

Ég ætla, að þetta liggi ljóst fyrir öllum hv. þm., að þau svæði, sem um er að ræða fyrir fiskibáta við Faxaflóa, eru svo takmörkuð, að nauðsyn ber að sjá til þess, að þetta svæði notist sem bezt með því að setja ákveðnar reglur um þann tíma, sem bátarnir fara til róðra. Það er augljóst, þar sem svo horfir við, að ef tryggar reglur væru ekki um þetta settar, hvenær bátarnir mættu fara úr nærliggjandi veiðistöðvum til veiða á þessum svæðum, þá mundi verða mesta óreiða á því, og það væri alveg óviðhlítandi. Ég býst við, að það sé ekki þörf á því, að þetta mál fari til n., þar sem það kemur frá sjútvn., og vildi ég því mælast til þess, að frv. yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. án n.