08.01.1945
Neðri deild: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

233. mál, róðrartími fiskibáta

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það er síður en svo, að ég vilji andmæla þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég býst við, að ærin þörf sé á því að setja slík l., ef svo er ástatt suður með sjó, sem þetta frv. virðist benda til, að þeir menn, sem sækja þaðan sjó, hafa ekki sett reglur um þetta, sem heimilt er að gera samkvæmt gildandi l.

Samkv. þessu frv. tekur það ekki til miða í norðanverðum Faxaflóa, þar sem sótt er frá Akranesi, enda er þess engin þörf að því er snertir Akranes, því að þar hefur um langt skeið verið fylgt ákveðnum reglum af þeim mönnum, sem þaðan stunda fiskveiðar. En nú finnst mér, að vel geti svo farið, miðað við þessar ástæður við Faxaflóa, þar sem svo mjög er þrengt að mönnum, að fiskimenn úr Reykjavík, Hafnarfirði og jafnvel Keflavík taki það til bragðs að sækja á mið í norðanverðum flóanum, og þá verða bersýnilega þær reglur, sem fylgt er á Akranesi, ekki einhlítar, miðað við menn, sem koma frá öðrum verstöðvum, er engar slíkar reglur hafa og laga sig ekkert eftir þeim reglum, sem gilda á Akranesi.

Mér skilst því, að ef til þess kynni að koma, sem ég álít vel geti orðið og hefur enda verið algengt, án þess að bátar frá Reykjavík sæktu á Akranesmiðin, væri full ástæða til, að séð yrði fyrir því í þessu frv., að ekki hlytist af það tjón í fisköflun og tapi veiðarfæra, sem gæti leitt af því, ef öllum lenti saman á miðunum.

Ég vildi beina því til hv. sjútvn., að hún taki það mál til athugunar milli umr.