08.02.1944
Neðri deild: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

27. mál, skipun læknishéraða

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er einfalt og óbrotið, en þó mikilsvert fyrir þá, er það skiptir.

Það er um tvö aðalatriði að ræða, — fyrst, að Fljótsdalshérað, sem nú er tvö læknishéruð, skal sameina í eitt. Það hefur reynzt mjög erfitt undanfarið að fá lækna í þessi héruð, sérstaklega að Hjaltastað, og raunar má segja hið sama um Brekku. Frá því 1942 hefur verið unnið að því í samráði við landlækni að ráða bót á þessu. Niðurstaðan varð sú, að sameina skyldi héruðin, með læknissetri að Egilsstöðum. Á þessu var það tormerki, að reisa þurfti nýjan læknisbústað. En nú varð sá atburður í vetur, að læknissetrið að Brekku brann og læknirinn fluttist til Egilsstaða.

Ég hygg, að skipulagsn. hafi haft með höndum uppdrátt að þorpi á Fljótsdalshéraði, og mun því vera ætlaður staður að Egilsstöðum. Fæst þá ákveðið, hvar læknissetrið skuli vera. Nú þótti ráðlegt, að læknar yrðu tveir eða a.m.k. einn með fastan aðstoðarlækni. Væri það allveruleg bót frá því, sem nú er, þegar ýmist er einn eða enginn eins og komið mun hafa fyrir.

Ég tel ekki þörf á að ræða þetta nánar, en vænti, að greitt verði fyrir þessu nauðsynjamáli. Annað atriði þessa máls er um flutning læknisseturs frá Eyrarbakka að Selfossi.

Eins og kunnugt er, fer byggðin á Selfossi stöðugt vaxandi. Virðist því varla rétt að ætlast til, að þessi byggð ásamt Hveragerði þurfi að sækja lækni fram á sjávarströndu. En á móti þessu mæla Stokkseyrar- og Eyrarbakkahreppar. Fyrir þessu er gerð rækileg grein í athugasemdum við frv., og vænti ég, að þar geti hv. þm. fengið nægilegar upplýsingar til að mynda sér skoðun um þetta mál.

Þá hefur komið till. um að nefna læknishéruðin eftir bústöðum læknanna, og virðist mér það eðlilegt, en þó gæti farið betur á að gera undantekningar um þetta atriði.

Að síðustu vil ég geta þess, að ef þessi l. verða samþ., þykir mér sýnt, að fella verði önnur l. um sama efni inn í þessi til samræmis og gera úr ein heildarlög.

Ég óska, að málinu verði vísað til, heilbr.- og félmn.