28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Sigurður Guðnason:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá var ég algerlega á móti frv. og lagði til, að það yrði fellt, og ég get ekki sagt, að ég mundi vera með till. landbn., þó að þetta færi ekki lengra. Af þeim ástæðum, að ég er algerlega á móti þjóðjarðasölu í heild, tel ég ekki rétt, að þessi þjóðjarðasala eigi sér stað, í fyrsta lagi vegna þess, að einstaklingum er gefinn réttur til þess að geta verzlað með jarðirnar og það lendir oft í braski, og í öðru lagi er eins og það sé föst og skilyrðislaus regla, að jarðir, sem ríkið á, séu háðar öðrum söluskilmálum en það, sem einstaklingar eiga. Það er talið óviðeigandi af ríkinu að selja jarðir eftir því gangverði, sem þætti sjálfsagt, að einstaklingar mættu gera, og þó að ríkið kaupi eignir fyrir tugi milljóna kr., þá þykir sjálfsagt, ef einstaklingar ágirnast það, að þeir fái þessi verðmæti fyrir miklu lægra verð en á almennan mælikvarða.

Hvað víðvíkur þessum jörðum, sem talað er um í frv., þá er kannske dálítið eðlilegt, að ábúendur jarðanna fari fram á að fá þær keyptar, en ef kemur til að gera makaskipti, þá nær auðvitað ekki nokkurri átt, að ábúendum eignanna sé ekki gefinn kostur á því. En ég álít samt, að makaskipti komi ekki til mála.

Í fyrra var gerð hér á Alþ. undanþága með smáskika, sem tilheyrði Flóaáveitunni, sem látinn var upp í kostnað við áveituna og ekki var hægt að nytja sérstaklega.

Hvað viðvíkur þriðju jörðinni hérna, eyðijörðinni Gröf, þá get ég hreint ekki séð, að það sé neitt verra fyrir þá, sem eiga að nytja þessa jörð, þó að hún sé eign ríkisins, heldur en hún verði eign þess manns, sem þarna býr og skiptir henni milli barna sinna. Ég sé ekki, að hún verði nokkru tryggari í ábúð, þó að einstaklingar skipti henni á milli sín, en ef ríkið á hana, og ég teldi þá leið miklu heppilegri, því að ábúandinn getur nytjað jörðina eftir sem áður.

Það hefur komið í ljós ákaflega einkennilegt fyrirkomulag, sem ekki hefði getað átt sér stað hjá neinum einstaklingi, sem ætti jörð, að landamerki jarðarinnar eru þannig, að tún og bær tilheyra annarri jörð. Það sýnir ekkert annað en hvað einstaklingar ganga yfirleitt á rétt sameignarinnar. Það mundi enginn leyfa sér að ganga þannig á rétt einstaklinga, og ég álít, að hv. þm. ættu ekki að taka sér það til fyrirmyndar með þjóðjarðasölu, og mun ég því greiða atkvæði á móti frv.

Svo er eitt enn. Ég held, að komnar séu einar fimm jarðir í viðbót, sem menn vilja selja, og ég gæti trúað, að það kæmu 10 til 20, áður en frv. er komið gegnum þingið.

Svo er þetta ákvæði um erfðaábúð og ættaróðul. Það getur verið, að einhver munur sé þar á, en frá mínu sjónarmiði er það ekki neitt annað en verið er að draga eignir inn í ættareign í stað persónueignar, og ég geri ákaflega lítinn mun á því.