28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Gísli Sveinsson:

Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir, og er hana að finna á þskj. 336, sem sé, að heimilt verði skv. frv., eins og það yrði nú úr garði gert, að leyfa einnig að selja kirkjujörðina Prestsbakkakot á Síðu í Vestur-Skaftafeilssýslu ábúandanum þar, Jóni Steingrímssyni.

Annað, sem greinir á því þskj., er að leiðrétta fyrirsögnina í samræmi við það og einnig í samræmi við það, sem síðar kynni að verða við frekari aukningu frv., þannig að talað sé um sölu nokkurra opinberra jarða.

Þessi brtt. er fram komin nú við það, að ábúandinn á þessari jörð hefur um margra ára bil óskað að fá þessa jörð keypta, en eins og löggjöfinni hefur verið háttað um sinn, hefur ekki verið kleift að fullnægja þeirri ósk nema með lagabreyt. eða nýrri löggjöf eða lagaákvæðum, sem heimiluðu slíka sölu, því að hann eins og aðrir, sem hafa farið fram á að fá jarðir sínar keyptar, hafa ætlazt til, að þeim yrði veitt heimild til að selja jarðirnar frjálsri sölu, sem kalla mætti. Nú hefur það ekki fengið sérlega áheyrn á Alþ. að undanförnu, og hafa enda þær reglur verið afnumdar, sem gerðu frjálsa sölu mögulega, og ég hef ekki séð mér fært að brjótast í því með þessa einu jörð að reyna að fá hana ábúandanum til kaups. Ég hef ekki viljað brjótast í því fyrstur manna, hef búizt við, að straumhvörf yrðu í því í þjóðmálunum, að ekki yrði alltaf tóm sameining, en ábúendur gætu fengið jarðir sínar keyptar, eins og eitt sinn þótti góð regla. En eins og nú horfir við, sé ég ekki ástæðu til annars en að heimila þessi kaup og mun sætta mig við að ganga undir það ok, sem meiri hl. landbn. vill leggja á, að þessum jörðum sé breytt í óðalsjarðir. (BA: Stendur ekki einhvers staðar: Mitt ok er létt?) Getur það ok orðið létt, af því að ábúandanum er í sjálfsvald sett, hvort hann vill fara fram á þessa heimild og ganga undir þetta létta ok eða láta svo búið standa, og tel ég honum jafnborgið, hvort sem væri.

Þau efnisrök, sem liggja til þessa máls, eru þau, er nú skal greina:

Ábúandi Prestsbakkakots hefur búið þar allan sinn aldur. Frá ómunatíð hefur þetta verið sjálfstæð jörð og kemur ekki Prestsbakkanum við, sem var prestssetur, en er nú eigi lengur. Hefur bóndinn unnið mikið starf á jörð sinni, ekki aðeins komið þar upp börnum, heldur gert mjög mikið til bóta á jörðinni af mikilli ósérplægni. umsjónarmaður stjórnarráðsins með opinberum jörðum segir, að það sé alveg sjálfsagt, ef þessi ábúandi vill fá jörð sína undir löglegum kvöðum, þá fái hann það fyrstur manna, því að hann hefur gert þar svo mikið fyrir sig og heimili sitt. Og um leið og landaskipti yrðu framkvæmd, þá ætti hann að fá nokkra sneið af landi Prestsbakkans í hlutfalli við stærð jarðanna. Stærðarhlutföll eru þau, að Prestsbakkakot er einn fimmti hluti, en fjórir hlutarnir eru alls kostar hin forna prestssetursjörð, sem hefur af sjálfu sér þannig lagað land, að allt gæti þar verið heimafengið við túngarðinn, ef ræktað væri, og miklu meira en það. En t.d. um, hvað þessi ábúandi, Jón Steingrímsson, hefur gert á þessari jörð, má benda á, að hann hefur nú gert hana tiltölulega mjög lífvænlega. Hann hefur tekið ástfóstri við hana, eins og tíðkazt hefur hjá góðum mönnum, þó að nú þyki ýmsum undarlegt, að nokkur skuli taka ástfóstri við jörðina. Hann hefur byggt mjög vel á eigin spýtur styrklaust og raflýst, einnig upp á eigin spýtur, á þessari litlu jörð. Sonur hans býr þarna með honum með góðum þrifnaði. Það er alls ekki svo að skilja, að þeir, sem kaupa jarðir með þeim venjulegu kjörum, er ríkisvaldið setur, séu ætíð betur settir en þótt hið opinbera eigi jarðirnar. Nei, það getur verið öfugt, því að það er a.m.k. svo í mínu umdæmi, að opinberar jarðir eru svo lágt leigðar og byggðar með svo vægum kjörum, og svo mun það vafalaust vera víðar. Nei, það er bara þetta eðli mannsins að vilja vita, hvað hann á, og það er ekki enn búið að afnema það eðli, þó að verið sé að bisa við að koma öllu undir einn hatt, stundum með réttu, en stundum vafalaust með röngu. Hv. 1. landsk. var að bera í bætifláka fyrir þessa stefnu, en mér virtist hann vera á okkar máli annað veifið, því að hann taldi óráðlegt að láta jarðirnar út í einstaklingsbrask, en fann svo að því, að hið opinbera seldi jarðirnar brasklaust. Annars var það upphaflega ætlunin, að jarðirnar væru seldar ábúendunum brasklaust með góðum kjörum, og svo var ætlazt til af ýmsum, sem hugsað hafa um þessi mál, að sporna mætti við því með ýmsum ráðum, að jarðirnar lentu ófyrirsynju í brask. Ég held, að hv. 1. landsk. sé ekkert á móti þessu, að hið opinbera selji með góðum kjörum góðum mönnum ábýlisjarðir þeirra, því að það eru hvort sem er ávallt undantekin höfuðból, sem nota þarf til opinberra þarfa, því að þá kemur ekki til, að sala sé leyfð af hálfu stjórnarvaldanna.

Meiri hl. hv. landbn. hefur líka séð, að hér er um sanngirnismál að ræða, og hv. 2. þm. N.--M. kemur hér með brtt., sem ég tel eðlilega, og sjálfsagt, að fleiri komist undir þennan hatt, fyrst hv. n. hefur lagt út á þessa braut og vill ljá málinu fylgi. Er það að forminu til þakkar vert, en að efni til eru það engin útlát, þar sem n. snýr dæminu við, því að í l., sem nú gilda um ættaróðul og erfðaábúð, í II. kafla, 47. gr., þar er mönnum ekki aðeins heimilað, heldur gefinn réttur að uppfylltum vissum skilyrðum að kaupa ábýlisjarðir sínar. M.ö.o., því opinbera er gert skylt að selja jarðirnar. Hér er ekki hafður sá gangurinn á, heldur borið fram sérstakt frv., og hefur n. fallizt á, að rétt sé að selja þessum mönnum jarðir þeirra að uppfylltum vissum skilyrðum, og enn fremur flutt brtt. við það. Hefur n. við nánari athugun ekki séð annað fært, og er það gott og vel. Og þótt fara megi hina leiðina, þá er þó beinasta leiðin þessi, og vænti ég alls góðs hjá hv. nefnd.