28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður. — Menn þekkja afstöðu mína gagnvart anda þessa frv. Ég hef verið á móti því, er á móti því og verð á móti því. Þegar þess vegna þeir þrír menn, sem ég legg til á þskj. 569, að fái ábýlisjarðir sínar keyptar, hafa beðið mig um nokkurra ára skeið að reyna að fá heimild til þessara kaupa, þá hef ég ekkert gert í því máli. Umsóknir um kaup frá tveimur þeirra hafa legið í stjórnarráðinu, önnur um ár, hin eitthvað skemur. Hefur þeim ekki verið svarað enn, en það er heimilt að selja þær án sérstakra laga, þar sem jarðirnar eru eign jarðakaupasjóðs ríkisins. En þar sem ekki hefur komið svar enn við umsóknunum um kaupin, finnst mér rétt að flytja hér till. um kaupin, svo að mér verði svarað.

En það er svo hér, eins og einn af okkar íslenzku málsháttum segir, að ein vitleysan býður annarri heim, og rætist það greinilega á þessu frv. Það var vitlaust frv., sem kom hér fram fyrir nokkru, þar sem ætlazt var til, að makaskipti yrðu höfð á þessari jörð, og það vitlausa frv. er látið vera grundvöllur fyrir því, að þetta vitlausa frv. kemur nú fram. En ef Alþ. er svo vitlaust að samþ. þessa vitleysu, þá vil ég ekki standa í vegi fyrir því, að tveir eða þrír menn, sem hafa beðið mig að hjálpa til, að þeir gætu fengið jarðir sínar keyptar, gætu fengið því framgengt. Ég mun því verða með brtt., en móti frv., alveg eins ,þó að brtt. mín verði samþ.

Hvað þessar jarðir snertir, þá eru tvær þær fyrstu eign jarðakaupasjóðs, keyptar af honum fyrir nokkrum árum. Nú vilja ábúendurnir fá þær keyptar, og ríkisstj. hefur heimild til að selja, en vitanlega kemur það ekki til mála, nema þær séu gerðar að ættaróðulum. Þriðja jörðin er eyðijörð, hefur verið það lengi, ég veit ekki, hvað lengi, en hún er talin eyðijörð í a.m.k. fjórum síðustu jarðatölum, þar á meðal Johnsens jarðatali. Hún er landlítil og hefur fremur litla möguleika sem sjálfstæð jörð. Bóndinn, sem hefur nytjað hana og býr á Hóli, vill fá hana keypta. Það er enginn vafi, að það er hægt að gera hana að sjálfstæðu býli, en þó er hún fulllítil til þess, eins og málum er þarna háttað. Hann hefur mörgum sinnum beðið mig að reyna að fá jörðina keypta fyrir sig. Ég hef alltaf sagt honum, að ég gerði ekkert í því. En ef Alþ. vill fara að selja opinberar eignir, þá er engin ástæða til annars en hann fái þessa ósk sína uppfyllta eins og aðrir, og þá á hann ekki að gjalda þess, að hann hefur beðið mig fyrir það, þó að ég sé persónulega á móti því.

Ég færi fram óskir þessara þriggja manna, það eru ekki mínar óskir, heldur þeirra óskir, og ég mun eins greiða atkv. móti frv., þó að till. mín verði samþ.