28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Sigurður Guðnason:

Það eru örfá orð. — Hv. 10. landsk. telur, að ég sé með þjóðjarðasölu. Ég get ekki fundið það. En ég talaði um, að jarðir, sem hið opinbera seldi, væru ódýrari en hjá einstaklingum og að jarðir, sem hið opinbera leigði, væru mjög lágt leigðar og lægra en hjá einstaklingum. En ef menn, sem hafa á leigu jarðir frá hinu opinbera, vilja fá þær keyptar, þá hlýtur það að vera af því, að þeir eru ekki ánægðir með þær hagsbætur, sem þeir hafa, og vilja fá meiri hagsbætur með því að fá þær keyptar:

Þá er annað, sem sýnir undanhald hjá hv. þm. Hann segir, að ekki komi til mála að selja höfuðból, sem ríkið þurfi að nota. En svo kemur það fram, að einu höfuðbólinu þarf að skipta við þessa jarðasölu, því að hann talar um, að einn fimmti af Prestsbakkanum verði seldur, og ef hann kallar Prestsbakkann höfuðból, þá er það rýrt með því að skipta einum fimmta úr.

Ég tek það fram aftur, að ég mun greiða atkv. á móti frv., af því að ég álít, að það séu nógir hagsmunir fyrir einstaklingana að búa á ríkisjörðum með betri kjörum en annars staðar fást, og í öðru lagi, að þegar ríkið leggur mikið fé til jarðabóta, þá sé eðlilegra, að það sé að bæta eigin jarðir og skapa þar með ábúendunum betri kjör en leggja það í jarðir einstaklinganna, því að þegar er búið að rækta þar og byggja með styrk úr ríkissjóði, þá er kannske eins erfitt að lifa þar eins og meðan jörðin var óræktuð og illa hýst, af því að þá verður að borga svo mikið fé fyrir að fá að vera þar. Það er hægt að telja margar jarðir, sem eru svo dýrar. Ég legg því til, að frv. verði fellt.