17.10.1944
Neðri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

N. hefur athugað þær brtt., sem hér komu fram við 2. umr. þessa frv. um sölu á jörðunum Laxárdal og Ymjabergi á Skógarströnd og Gröf í Staðarsveit. Eftir að n. hafði kynnt sér þetta til hlítar, hefur meiri hl. n. komizt að þeirri niðurstöðu að mæla með brtt. á þskj. 336 um sölu á þjóðjörðinni Prestsbakkakoti á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu, en orðið sammála um að leggja á móti brtt. á þskj. 369, öllum saman (PZ: Öllum, það er nú vitleysa.), og af þeim ástæðum, sem nú skal greina: Á þskj. 369 er farið fram á að bæta við þetta frv. heimild um sölu á þrem jörðum í Norður-Múlasýslu, Refsstöðum í Vopnafjarðarhreppi, Snotrunesi í Borgarfjarðarhreppi og Steinboga í Hjaltastaðahreppi.

Það er svo um fyrstu tvær jarðirnar, Refsstaði og Snotrunes, að báðar eru eign jarðakaupasjóðs ríkisins, en skv. l. um erfðaábúð og ættaróðul hafa þessir ábúendur jarðanna rétt til þess að fá þær keyptar, ef þeir sækja um það og ríkisstj. að athuguðu máli vill veita þá heimild. Nú hafa báðir ábúendur beggja þessara jarða farið fram á það við atvmrn. að fá þessar jarðir keyptar. Ráðun. hefur þegar látið það boð út ganga, að verða skuli við beiðni þeirra, og nú þegar hefur það falið þeim manni í ráðun., sem fer með þessi mál, að tilkynna þessum tveim bændum, að jarðirnar fáist keyptar. Okkur í landbn. finnst því tilgangslaust að fara að samþ. um það sérstök l., þar sem bændurnir geta fengið þær keyptar samkv. öðrum l. — Um þriðju jörðina gegnir hins vegar öðru máli. Eyðijörðin Steinbogi í Hjaltastaðahreppi hefur nú um skeið verið nytjuð af ábúandanum á Hóli, Geirmundi Eiríkssyni, en jörðin Hóll er þjóðjörð og tilheyrir Eiðaþinghá. Það er því útilokað, að Geirmundur geti sameinað ábýlisjörð sína eyðijörðinni Steinboga, sem hann hefur haft nytjar af undanfarin ár, því að þetta eru hvor tveggja þjóðjarðir. Það væri sanni nær, að þessi eyði jörð skyldi sameinuð Hóli og gert úr því eitt býli. Þegar ábúandi á einkaeign fær eyðijörð, sem er eign ríkisins og hann hefur nytjar af, er honum gert að skyldu að sameina eyðijörðina, sem hann hefur haft nytjar af á undanförnum árum, einkaeign sinni. En okkur þykir ófært að fara að leyfa sölu til prívatmanna á jörðum, sem hafa verið nytjaðar frá opinberum jörðum og yrðu undir flestum kringumstæðum nytjaðar þaðan í framtíðinni, meðan aðaljörðin er eign ríkisins. Við erum þess vegna á móti því, að eyðijörðin Steinbogi í Hjaltastaðahreppi verði seld Geirmundi Eiríkssyni, bónda á Hóli, meðan ekkert liggur fyrir um, að hann ætli að reisa þar nýbýli. Ef svo væri, liti málið öðruvísi út, en samkv. upplýsingum frá hv. 2. þm. N.--M. getur landbn. ekki fallizt á, að jörðin verði seld, og leggur því til, að brtt. á þskj. 369 verði allar felldar, en hins vegar, að brtt. á þskj. 336 verði báðar samþ.

Í samræmi við þetta ber n. fram smá brtt. við breyt. í nál. á þskj. 328 um, að í stað orðanna „tölul. 1 og 2“ komi: tölul. 1, 2 og 3, — með því að þá eru þær jarðir, sem þar er vísað til, orðnar þrjár í stað tveggja áður. Verði brtt. á þskj. 336 samþ., er því nauðsynlegt að samþ. brtt. á þskj. 434, en verði brtt. á þskj. 336 felldar, mun landbn. taka aftur brtt. á þskj. 434, þar sem hún á þá ekki lengur við.