06.12.1944
Efri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Landbn. d. hefur haft frv. þetta til athugunar, og hefur niðurstaða hennar orðið sú að mæla með samþykkt þess. Einn nm. hefur lýst yfir, að hann væri ekki samþykkur frv. að öllu leyti, og mun hann bera fram brtt. Hann hefur lýst sig aðeins samþykkan sölu eyðijarðarinnar Grafar í Staðarsveit og hefur skrifað undir með fyrirvara.

Einn nm., hv. 3. landsk. (HG), var fjarstaddur og er því óbundinn um afstöðu til frv. Hef ég svo ekki annað um frv. að segja. Við hinir nm. leggjum til, að frv. nái fram að ganga í því formi, sem það nú er.

Ég vil láta þess getið frá eigin brjósti, að mér virðist heimildir til sölu á opinberum eignum ærið handahófskenndar, og álít ég, að brýna nauðsyn beri til að setja reglur um jarðakaup og jarðasölu ríkisins. Ég tel það hentugra fyrir ríkið og almenning í landinu, að þetta fái hentugri farveg en það hefur nú og tekið verði á þessum málum föstum tökum. Alþ. verður að gera upp við sig með lagasetningu, hvert takmarkið skuli vera, hvort markmiðið eigi að vera, að bændur eigi að vera sjálfseignarbændur eða ekki. Þá verður að setja hömlur við því, að jarðabrask eigi sér stað, og væri þá eðlilegt að veita bændum heimild til að geta fengið jarðir sínar keyptar. Ég hugsa, að menn séu dálítið tvíbentir um þetta, en mér væri ekki nema ljúft að stuðla að því, að bændur gætu búið á sjálfseignarjörðum. — Ég vildi aðeins vekja athygli á, hversu laust er haldið á þessum málum frá ári til árs.

Vil ég svo vænta þess, að d. geti fallizt á álit landbn. á frv. þessu.