16.02.1944
Neðri deild: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — N. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Við í meiri hl. leggjum til, að það verði samþ., en minni hl. vill samþ. það nokkuð breytt.

Þær breyt., sem gert er ráð fyrir á heilbrigðislöggjöfinni með þessu frv., eru eiginlega þrjár. Sú fyrsta er í 1. gr. og fjallar um læknaskipanina á Fljótsdalshéraði. — Fljótsdalshérað, sem er yfir 100 km milli fjöru og fjalls og klofið að endilöngu í þrennt af tveim stórám, sem eru óreiðar milli fjalls og fjöru, hefur verið tvö læknishéruð, Brekkuhérað, sem er um efri hluta héraðsins, og Hróarstungu- eða Hjaltastaðalæknishérað, sem er yfir ytri hlutann. Þvert yfir þetta langa svæði, nær miðju, liggur nú þjóðvegurinn, og þar eru einu brýrnar á stóránum, en út frá honum, að segja má frá Egilsstöðum eða Lagarfljótsbrú, eru nú vegirnir að teygja sig bæði út og fram héraðið. Enn er ekki kominn vegur að læknisbústaðnum á Hjaltastað. Allar ferðir um Fljótsdalshérað liggja frá og að miðbikinu, þar sem þjóðvegurinn nú liggur yfir það, og þangað er nú hugsað að flytja báða læknisbústaðina, gera eitt læknishérað úr öllum héraðshreppunum, en láta aðallækninn, sem alltaf hafi aðstoðarlækni, sitja miðhéraðs, á Egilsstöðum, og gegna læknisþjónustu héraðsins alls.

Það orkar ekki tvímælis, að mestan hluta ársins — eða meðan bílferðir haldast um héraðið — er heppilegra fyrir íbúa læknishéraðsins í heild að vitja læknis, ná í lyf o.s.frv. hjá lækni á Egilsstöðum en að ná til annars hvors læknisins, er sæti á gömlu læknissetrunum. Undantekningar eru með íbúa Fljótsdalshrepps, en þar hefur annar læknirinn setið, enda er upplýst, að íbúar þess hrepps vilja ekki láta flytja lækninn frá Brekku, og hafa Alþ. borist áskoranir frá þeim um það. Sama má segja um íbúa Hjaltastaðahrepps, en í þeim hreppi sat ytri læknirinn. Þó hafa engar áskoranir borizt frá þeim.

Það er auðskilið, að það er langt að sækja lækni milli 50 og 60 km langan veg, en það er vegalengdin frá hinum væntanlega læknisbústað til bæjanna, sem liggja úti við sjó og innst inn til dala. En nú teygja sig fjórar vegálmur út héraðið og þrjár inn það, og er þess að vænta, að eftir því sem þær lengjast, léttist læknissóknin.

En þó að þessi breyt. verði til bóta oftast á árinu, þá er því ekki að leyna, að hluta úr vetrinum, þegar snjór liggur yfir og ár eru á ís, er fljótlegra að ná í lækni, ef þeir tveir sitja á núverandi læknissetrum en á Egilsstöðum. Um leið og þessi breyt. er gerð, er ætlazt til þess, að nyrzti fjörðurinn austan Héraðsflóa, Borgarfjörður, sem áður hefur heyrt undir Hróarstunguhérað, verði gerður að sérstöku læknishéraði og íbúum Loðmundarfjarðar leyft að ráða því, hvort þeir vitja hans eða læknisins á Seyðisfirði.

Þrátt fyrir það að ég viðurkenni, að íbúar Fljótsdalshrepps og Hjaltastaðahrepps eigi að jafnaði hægara með að vitja læknis á gömlu læknissetrin og margir fleiri, þegar ófærð er og ár lagðar, þá tel ég mjög mikla bót að þessari breyt., og leggjum við til allir nm., að þessi breyt. verði samþ.

Önnur breyt. felst í annarri gr. og færir læknisbústaðinn frá Eyrarbakka að Selfossi. Þróunin á Suðurlandsundirlendinu hefur orðið sú, að Eyrarbakki, sem áður var aðalverzlunarstaðurinn og allar leiðir lágu til, er það nú ekki lengur. Selfoss er kominn til, og þaðan og þangað liggja nú allir vegir og allar leiðir úr læknishéraðinu. Það liggur því í augum uppi, að þar á læknirinn að sitja. En héraðið er mannmargt og því hæpið, að einn læknir anni því. Þyrfti því þar, eins og í hinu nýja Egilsstaðahéraði, að vera fastur aðstoðarlæknir.

Það þriðja, sem breytt er, er um nöfn ýmissa læknishéraða svo og orðabreyt., sem orðnar eru nauðsynlegar, vegna þess t.d., að hreppur er orðinn að kaupstað, — Ytri-Akraneshreppur að Akraneskaupstað o.s.frv.

Við sum nöfn læknishéraðanna kann ég illa, en þar er fylgt þeirri reglu að kenna þau við læknisbústaðinn, og þar sem það er gert, sé ég ekki ástæðu til að malda í móinn, þó að einstaka nafn láti mér fyrst illa í eyrum.

Sem sagt, við leggjum til, að frv. verði samþ., og ég geri það í þeirri ákveðnu von, að landlæknir á hverjum tíma sjái til þess, að aðstoðarlæknar eftir l. nr. 52 1942 verði í báðum héruðunum, því að þau eru svo stór, annað að víðáttu, hitt að fólksfjölda, að það þarf að hafa tvo lækna í þeim báðum.