12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Þegar landbn. þessarar d. hafði þetta frv. til athugunar, barst henni í viðbót beiðni frá ábúanda jarðar um kaup á ábýlinu. Það er bóndinn á Eystri-Skógum í Austur- Eyjafjallahreppi í Rangárvallasýslu, sem fer þess á leit, Guðmundur Vigfússon að nafni. Þetta er ungur bóndi og hefur ekki fyrir alllöngu tekið við búsforráðum eftir föður sinn, sem hefur búið þar rausnar- og myndarbúi lengi, og virðist ekki betur en þessi sonur hans vilji nú feta í fótspor föður síns, halda tryggð við jörðina, koma á umbótum og halda öllu þar í sem beztu horfi, eftir því sem kunnugir segja, enda liggja nokkrar skýrslur fyrir um það. Jörð þessi er kirkjujörð og hefur verið í fastri ábúð um marga síðustu áratugi. Og nú er þessum unga bónda farið eins og fleirum að kjósa það helzt að eiga ábýli sitt, til þess að þar sé sem bezt treyst að.

Úr því að hv. d. virðist hafa gengið í þá átt, að samþ. þær kaupbeiðnir, sem fyrir liggja, þá sé ég enga ástæðu til þess að gera þar upp í milli og neita þessari, en samþ. hinar. Meiri hl. landbn. hefur fallizt á að mæla með þessari viðbótarbeiðni, og mun ég þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. Þessi maður er nokkuð á seinni skipunum með þessa beiðni, og þetta kemur því í togi á eftir. En til samræmis hef ég orðað brtt. svo, að á eftir 4. lið, eins og hann er nú, bætist nýr liður, 5. liður, svohljóðandi: Kirkjujörðina Eystri-Skóga í Austur-Eyjafjallahreppi í Rangárvallasýslu ábúandanum, Guðmundi Vigfússyni. — Þessi jörð, ef samþ. verður, verður háð sömu kvöðum og tekið er fram um hinar ábýlisjarðirnar, að þær verða að vera ættaróðal samkv. l., sem þar að lúta.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. frá meiri hl. landbn. með ósk um, að hv. d. sjái sér fært að samþ. hana.