16.02.1944
Neðri deild: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

27. mál, skipun læknishéraða

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Efnisbreyt. frv. eru tvær, skipting Hróarstungulæknishéraðsins í tvennt og færsla læknisaðseturs frá Eyrarbakka upp að Selfossi. — Hróarstunguhéraðið eða hið gamla Borgarfjarðarhérað skiptist þannig, að annar hlutinn verði nýtt læknishérað, en hinn leggist undir Fljótsdalshérað og flytjist læknir þess að Egilsstöðum eða Lagarfljótsbrú og þar komi annar læknir honum til aðstoðar. Ég er sannfærður um, að þarna er rétt spor stigið. Það á að halda héruðunum nokkuð stórum og hafa þar, þegar unnt er, tvo lækna. Þeir geta gert miklu meira gagn tveir saman en einn og einn fyrir sig í héruðunum. Með þessu móti verður Fljótsdalshérað stórt og nokkuð mannmargt.

Ég tel sjálfsagt að flytja læknissetur að Selfossi, þótt Eyrarbakki verði e.t.v. eitthvað verr settur eftir það. Allir viðurkenna, að læknirinn er miklu betur settur á Selfossi, Eyrarbakki er á héraðsenda, Selfoss í miðju og er miðstöð allra ferða og verzlunar. Í læknishéraðinu eru nú 3200 manns, og fara a.m.k. kauptúnin að Selfossi og í Hveragerði ört vaxandi, fækkun hins vegar nokkuð líkleg á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ég held, að það sé ekki rétt að ganga inn á að minnka héraðið eða skipta því. Ég man, að 1938 komu áskoranir um að stofna nýtt læknishérað, Þjórsártúnshérað, og leggja undir það hluta af hinum fjölmennu læknishéruðum báðum megin Þjórsár. En þegar þeim, sem fram á þetta fóru, var bent á vandkvæðin, gerðust margir þessu fráhverfir. Það þurfti að koma upp læknisbústað og helzt sjúkraskýli, og er það dýrt fyrir í fámenn héruð, bæði stofnkostnaður og rekstur. Og þegar læknir er einn, verða minni not að sjúkraskýli og að starfi þeirra en ef tveir eru, eins og þarf að vera í hinum stóru héruðum. Þess þarf og að geta, að mjög erfitt er að fá lækna í smá héruð út um land, en um stóru héruðin hefur gegnt nokkuð öðru máli. Ungur og framsækinn maður vill hafa nóg verkefni, og þau eru ekki til nema þar, sem nokkurt fjölmenni er.

Ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Í 3. gr. frv. eru breyt. gerðar til samræmis. Mér þykja sumar til lýta. Þó að ég finni ekki að því, að Rangárhérað skuli heita Stórólfshvolshérað, kann ég ekki sem bezt við t.d., að Borgarfjarðarhérað skuli kallað Kleppjárnsreykjahérað. En þarna er hneigzt að fornri venju um að kalla þing eftir þingstaðnum. Um þetta verður lítill ágreiningur yfirleitt.