11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

199. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Herra forseti. Í l. nr. 65 frá 8. sept. 1931, um hafnargerð á Sauðárkróki, er svo fyrir mælt, að fé til hafnargerðarinnar skuli vera alls 650 þús. kr. og greitt í venjulegum hlutföllum frá ríkissjóði og framlag úr hreppssjóði með ábyrgð ríkisins. Þetta fé, sem hafnarl. ákveða, er nú uppnotað. En hins vegar er, að því er segir í grg. frv., mikil þörf og aðkallandi að halda hafnargerðinni áfram, bæði með mokstri úr höfninni og bryggjugerð og byggingu sandvarnargarðs.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á, að þessi upphæð til hafnargerðar á Sauðárkróki verði hækkuð í sömu hlutföllum og áður hefur verið, allt upp í eina millj. kr. Með frv. fylgir sem fylgiskjal áætlun eftir Magnús Konráðsson um þessi mannvirki, sem bráðlega kallar að að reisa. Og er upphæð sú, sem farið er fram á í frv., nákvæmlega í samræmi við þá áætlun.

Sjútvn. Nd. sendi þetta frv. til umsagnar vitamálastjóra, og mælir hann eindregið með því, að frv. nái fram að ganga. Sjútvn. þessarar d. hefur athugað frv., og fellst hún á þau rök, sem koma fram bæði í grg. frv. og umsögn vitamálastjóra, og leggur því eindregið til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.