16.02.1944
Neðri deild: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Sigurður Thoroddsen):

Landlæknir tók það fram, og þess var getið m.a. bæði af hv. frsm. meiri hl. og hv. 1. þm. Rang. og enn fremur hv. 1. þm. Árn., að ætlazt væri til, að héraðið fengi einn þeirra fjögurra aðstoðarlækna, sem starfa samkv. l. frá 1942 um aðstoðarlækna. En þar er sá hanki á, að kvaðir liggja á aðstoðarlæknum. Í l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það skal vera kvöð á aðstoðarlæknum, sem ráðnir eru samkvæmt þessari heimild, að grípa megi til þeirra í allt að fjóra mánuði samtals á ári, þegar þeirra er þörf til að gegna læknishéruðum um stundarsakir sem settir héraðslæknar eða staðgöngumenn héraðslækna í fjarvistum þeirra og öðrum forföllum.“

Samkv. þessu er hægt að senda aðstoðarlæknana hvert á land sem er þriðjung ársins. Hv. 1. þm. Árn. kom að því atriði, að hægt kynni að vera að tryggja það með beinum lagaákvæðum, að þarna skyldi vera aðstoðarlæknir. Þetta má þá athuga við 3. umr.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að hann vildi halda læknishéruðum stórum og hafa tvo lækna í stærstu héruðunum, og sama sjónarmið kom fram hjá hv. 1. þm. Árn., því að þá ætti að mega búa vel að héruðunum. Þarna er komið að mergi málsins. Fyrir austan er verið að sameina tvö læknishéruð í eitt, þó þannig, að um leið er endurreist gamla Borgarfjarðarhéraðið. En læknishéraðið sameinaða verður mjög stórt. Hálfgert eða algert læknisleysi á svo stórum svæðum er ástand, sem má aldrei eiga sér stað, þótt það eigi sér nú stað og sé allri þjóðinni til skammar. Menn geta orðið örkumla vegna þess ævilangt, og framfærsla örkumlaðra er ekki lengi að gleypa ein læknislaun, þótt ekki sé allt of mikið borgað með hverjum einum. Það er talað um, að ekki muni vera hægt að fá lækni í Hjaltastaðahérað né Brekkuhérað, eins og nú horfi. Það er ógeðfelld aðferð, sem heilbrigðisstjórnin hefur haft til þess að fá íbúa hreppanna til þess að samþ. þessar breyt. Að dæma eftir greinargerð frv. hefur hún ýmist beitt hótunum um læknisleysi eða vilyrðum um góð kaup á læknisbústöðum héraðanna o.fl. Í fskj. I. er sagt frá tillögu, er samþ. var á fundi oddvita hreppa Fljótsdalshéraðs. Er fyrri hluti hennar svo hljóðandi:

„Að fengnum upplýsingum landlæknis óttast fundurinn, að vonlítið sé um lækni í Hróarstunguhérað að Hjaltastað og eins geti farið um Fljótsdalshérað, ef það losnar. Telur fundurinn meiri tryggingu í að sameina læknishéruðin handa einum aðallækni“ ...

Heilbrigðisstjórnin telur vonlaust um lækni að Hjaltastað og beitir þannig hótunum til þess að sameina læknishéruðin. Síðan koma blíðmælin. Þar segir svo:

„Skyldi bústaður fyrir þá reistur nálægt Lagarfljótsbrú, svo fljótt sem fært þykir, með ríflegum styrk úr ríkissjóði og í von um, að sæmilegt andvirði fáist frá ríkinu fyrir bústaðina á Brekku og Hjaltastað“. — Hér skiptast á blíðmæli og hótanir til þess að framkvæma misskilinn sparnað. Hvaða samræmi er svo í því að mynda sérstakt hérað, Bakkagerðishérað, með tæplega 400 íbúum? Eftir anda og stefnu þessa frv. er það alveg vonlaust.

Ég hef nú verið nokkuð harðorður í garð heilbrigðisstjórnarinnar, en því miður finnst mér grg. frv. réttlæta það. En hvernig á þá að ráða bót á þessu vandamáli? Það verður að gerast þannig að athuga skipan læknahéraðanna yfirleitt, en láta ekki sitja við það eitt að fækka þeim og stækka þau. Það verður að búa svo vel að læknunum í smáhéruðunum, að þeir fáist þangað, launa þeim betur eða þess háttar.

Í stuttu máli sagt, þá líkar mér ekki andinn í þessum l., en geri það ekki að kappsmáli og greiði frv. atkv., a.m.k. til 3. umr.