08.02.1944
Efri deild: 8. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

11. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er hingað komið frá hv. Nd. Það er borið fram til að staðfesta brbl. frá 30. des. 1943. En brbl. voru um að framlengja ákvæði, sem gilt hafa undanfarin ár, um álag á skemmtanaskatt, sem ákveðinn var með l. nr. 56 frá 31. maí 1927.

Eins og allir hér kannast við, hefur álagning þessi numið 200% af skemmtanaskatti af kvikmyndasýningum, en 20% af skatti af öðrum skemmtunum. Síðasta Alþ. láðist að framlengja þetta álag á skemmtanaskattinn fyrir yfirstandandi ár, og voru brbl. gefin út til þess, að þetta yrði framlengt þetta ár. Má telja víst, að það hefði orðið samþ. á síðasta þ., ef tími hefði verið til að taka það fyrir þá.

Fjhn. þessarar d. hefur athugað frv. og mælir með því, að það verði samþ. Geta má þess, að einn nm. var ekki viðstaddur, þegar málið var afgr., og því ekki beinlínis hægt að segja um afstöðu hans.