29.02.1944
Neðri deild: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

56. mál, hafnarlög fyrir Hrísey

Flm. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál er þannig vaxið, að það er óþarfi að hafa fyrir því langa framsöguræðu. Það stendur eins á um þetta kauptún, Hrísey, og mörg önnur, að þegar þau stækka, er nauðsyn á að gera í þeim ýmsar framkvæmdir og þar á meðal hafnarbætur. En það verður ekki með öðru móti en því, að þau verði aðnjótandi þess að fá til þess styrk úr ríkissjóði, og gildir það þá einnig um þetta kauptún, sem hér er um að ræða.

Það eina atriði, sem skilur þetta kauptún frá öðrum kaupstöðum og kauptúnum með tilliti til hafnarmannvirkja, er það, að hér er gert ráð fyrir, að það fé, sem því sé veitt í sömu hlutföllum og til annarra kauptúna, verði með ábyrgð sveitarsjóðs, en ekki eins og vera mun í hafnarl. annarra kauptúna, að einnig sé ákveðið um ábyrgð sýslusjóðs. Þessu ákvæði um ábyrgð sýslusjóðs er sleppt í þessu frv. vegna þess, að það hefur nú gerzt í Eyjafjarðarsýslu, að einu kauptúni hefur verið neitað um bakábyrgð sýslusjóðs. Það þýðir því það, að ef ákvæði um ábyrgð sýslusjóðs er í öðrum hafnarl. fyrir kauptún í Eyjafjarðarsýslu, þá mundu þau l. ekki koma að fullu gagni. Og ef ekki fæst einhvern veginn á þessu einhver bót, þá verða l. alveg gagnslaus og ekki hægt að hef ja neinar framkvæmdir.

Nú hefur verið lögð fram á hæstv. Alþ. till. til þál. um bráðabirgðahjálp handa Ólafsfirðingum, þannig að það kauptún hafi efni til hafnarmannvirkja. En það er bráðabirgðalausn á málinu, og er ekki búið að ráða því endanlega til lykta. Af þessum ástæðum hef ég sleppt þessu úr vegna Hríseyjar.

Ég vænti þess, að um þetta mál verði ekki miklar umr. að þessu sinni. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til athugunar.