06.12.1944
Neðri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

56. mál, hafnarlög fyrir Hrísey

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Mál þetta hefur legið alllengi fyrir sjútvn., og hefur n. beðið mjög lengi eftir umsögn vitamálastjóra. En eins og venja er til, hefur þetta frv. verið sent til umsagnar vitamálastjóra. Auk þess er því um að kenna, að þingfrestun hefur gripið hér inn í, og þar af leiðandi hefur afgreiðsla frv. tafizt.

Eins og meðfylgjandi fylgiskj. frá vitamálaskrifstofunni sýnir, hefur vitamálastjóri mælt með samþykkt frv., aðeins með þeim breyt. að fjárhæðir 1. og 2. gr. yrðu lækkaðar. — Öll sjútvn. hefur mælt með frv. á þá lund, sem vitamálastjóri hefur lagt til, að það yrði samþ. En ástæðurnar til þess, að fjárhæðir frv. hafa verið lækkaðar nokkuð, eru fyrst og fremst þær, að vitamálastjóra þykir ekki líklegt, að þessar miklu framkvæmdir, sem stendur til að gera í hafnarframkvæmdum í Hrísey, verði unnar nú á næstu árum, og gæti því vel farið svo, að þær yrðu unnar á nokkru ódýrari tíma en nú er, og sé því ekki nein þörf fyrir að hafa fjárhæðirnar eins háar og gert er ráð fyrir í frv., enda mundi þá verða hægurinn á að fá hækkaðar upphæðirnar, ef framkvæmdir þessar yrðu unnar á svo dýrum tíma sem nú stendur yfir.

Sjútvn. mælir með samþykkt frv. með þeim einu breyt., sem tilgreindar eru á þskj. 600.