09.01.1945
Efri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

56. mál, hafnarlög fyrir Hrísey

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — N. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við gildandi hafnarl. og séð við þann samanburð, að ábyrgð sýslun. Eyjafjarðarsýslu er felld burtu úr l. og farið þar inn á nýja braut með því að kippa burt ábyrgð sýslun. fyrir þeim hluta, sem ríkissjóður ábyrgist af láninu til hafnarbóta til hreppsins. Með því að hér er um að ræða reglur, sem ekki snerta kaupstaði, gat n. ekki fallizt á að leggja til, að frv. yrði samþ., nema ábyrgð sýslusjóðs yrði færð inn og komi til þar eins og í öðrum hreppum á landinu.

N. er alveg ljóst, að komið hafa upp háværar raddir frá hafnarbótasjóðum og lendingarbótasjóðum í landinu um það að fella þessi ákvæði niður úr hafnarl. En n. taldi ekki rétt að gera slíkt á þessu stigi málsins, en vill í þessu sambandi nota tækifærið til þess að benda á það, hversu mikil þörf er á því að fá samþ. almenn hafnarl. til þess að geta komið þessum málum í það horf, sem þau þurfa að komast í. Vil ég beina þessu til hæstv. samgmrh. Einnig vill sjútvn. beina því til hæstv. samgmrh., að svo fljótt sem unnt er verði samin almenn hafnarl., þar sem tekið sé til athugunar, hvort gerlegt þætti að fella burt þetta ákvæði. En það er vitanlegt, að ef þetta ákvæði um ábyrgð sýslusjóðs verður fellt burt úr einum hafnarl., kemur krafa um það frá öllum öðrum hreppum að fella það burt. Mér er kunnugt um, að það muni eiga að gera slíka kröfu fyrir Bolungavík, eftir að búið er að gera Ólafsfjörð að sérstöku bæjarfélagi, en það var gert aðallega vegna þess, að sýslun. Eyjafjarðarsýslu neitaði um ábyrgð. Ég sé ekki ástæðu til að fara inn á það nú, en það verður til athugunar á sínum tíma, hvað eigi að koma í staðinn, ef ábyrgð sýslusjóðs verður kippt burt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. N. leggur til, að frv. verði samþ., en þessu verði breytt eins og hún leggur til á þskj. 765.