09.01.1945
Efri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

56. mál, hafnarlög fyrir Hrísey

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Bæði hv. frsm. n. og hv. 1. þm. Eyf. hafa minnzt á það, hvað ríkisstj. mundi leggja til um samningu almennra hafnarl. fyrir allt landið, sérstaklega út af því atriði, sem hér er deilt um. Ég get út af þessu sagt það, að fyrir mþn. í sjávarútvegsmálum hefur legið þetta verk, og veit ég ekki annað en hún hafi safnað gögnum til þess að vinna úr og eigi í fórum sínum talsvert af því, sem þarf til undirbúnings slíks frv. Hins vegar hefur n. ekki enn skilað mér eða ráðun. neinu endanlegu um þetta mál. Ég hef rætt um þetta við form. n., og mér hefur skilizt, að honum léki fullur hugur á því, að þetta verk yrði unnið sem allra fyrst.

Hafnarl. eru orðin svo mörg fyrir allt landið, að æskilegt væri að sameina þau í ein heildarl. og handhægt að hafa það í einum l., og þar að auki mundu þessi ákvæði, sem í hafnarlög eru venjulega sett, verða í meira samræmi á þann hátt. — Það er vilji ráðun. og n., sem hefur þetta starf með höndum, að þessu verki ljúki sem fyrst.

Að því er snertir þetta sérstaka mál, þá er það rétt, að eins og frv. er nú úr garði gert, er það að því leyti óvenjulegt, að ekki er gert ráð fyrir, að sýslun. sé í bakábyrgð fyrir þeim lánum, sem hreppurinn kann að taka í þessum efnum. Hygg ég, að það sé vegna þess, að það atvik kom fyrir á s.l. ári, sem segja má, að landfrægt hafi orðið, að sýslun. neitaði að taka ábyrgð á láni vegna Ólafsfjarðar. En bæði var þar um miklu hærri upphæð að ræða en er í þessu frv. og svo einnig hitt, að sýslun. hefur einnig fengið svo mikla andúð fyrir þessa afstöðu sína til Ólafsfjarðar, að ekki er líklegt, að hún grípi til þess aftur, sérstaklega þegar ekki er um hærri upphæð að ræða en hér er. Það er þó allt í allt takmarkað við 1/2 millj. kr., en við hina ábyrgðina gerði sýslun. sér í hugarlund, að hún mundi verða 41/2 millj. kr., þó að það væri mín skoðun, að Ólafsfirðingar væru færir um að standa undir þeirri upphæð eins og Hríseyingar nú undir þessari. Ég segi því eins og hv. 1. þm. Eyf., ég mun ekki andmæla á neinn hátt þeirri brtt., sem hv. sjútvn. kemur með. Það er að vissu leyti eðlilegt og í samræmi við það, sem áður hefur verið. En á hinn bóginn skal ég reyna að ýta undir það, að mþn. í sjávarútvegsmálum ljúki sem fyrst við undirbúning frv., þar sem þetta mál allt verður tekið til yfirvegunar, þ.e. hverja tryggingu ríkissjóður eigi að fá fyrir lánum, sem hann kann að ábyrgjast í þessu skyni.