22.02.1944
Neðri deild: 16. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

27. mál, skipun læknishéraða

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég flyt hér brtt. um það, að Keflavíkurlæknishéraði verði skipt í tvennt, þannig að annað héraðið nái yfir Keflavíkur-, Gerða- og Miðneshreppa með læknissetri í Keflavík, en hitt yfir Vatnsleysustrandar-, Njarðvíkur-, Hafna- og Grindavíkurhreppa með læknissetri í Grindavík.

Eins og kunnugt er, þá er þetta hérað mjög fjölmennt, og auk þess er þar ætíð að vetrinum fjöldi aðkomufólks, meðan á vertíðinni stendur. Ég veit, að þeir, sem kunnugir eru, munu fallast á þetta mál. Því miður hef ég ekki haft tök á að kynna mér álit n. hér um, en vænti fastlega, að þetta nái fram að ganga.