16.12.1944
Efri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

203. mál, olíugeymar o.fl.

Magnús Jónsson:

Eins og háttv. frsm. n, sem jafnframt er flm. frv., skýrði frá, þá var ég ekki viðstaddur í sjútvn., þegar þetta mál var afgr., og hefur svo verið reyndar um fleiri mál, sem sjútvn. hefur afgr. upp á síðkastið, að ég hef ekki getað mætt þar á fundi. En ég var settur í þá n. af mannaskorti, sem varð, þegar hin nýja ríkisstj. var mynduð.

Ég hefði sjálfsagt mætt á fundum n., ef fjhn. hefði ekki haft launamálið til meðferðar og tekið til þess alla tíma, sem fyrir hendi voru, stundum frá kl. 9 á morgnana og til kvölds og stundum helga daga sem rúmhelga. Ég hef því ekki getað kynnt mér þetta mál svo, að ég treysti mér til að fylgja því fyrirvaralaust, enda þótt ég sjái ekki annað en rök hv. flm. séu rétt út af fyrir sig. Skrifaði ég undir með fyrirvara m.a. af því, að ég hef yfirleitt ekki verið mjög fylgjandi skattfrelsi, og því erfiðara að halda því áfram, sem nær verður gengið með álagningu skatta, sem fyrirsjáanlegt er. Og skattfrelsi leiðir óhjákvæmilega til þess, að það verður að hækka skattana á ýmsum, sem skattana greiða, og leggja á nýja skatta. Og þó að ég hafi ekki komið með till. um að ná skatti af samvinnufélögunum meir en hefur verið, þá vildi ég ekki mæla með frv. fyrirvaralaust, sem fer fram á að draga fleiri félög undan skatti.