22.02.1944
Neðri deild: 16. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

27. mál, skipun læknishéraða

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Eins og fram kom við 2. umr. þessa máls, tel ég nauðsynlegt, að Eyrbekkingum sé tryggður læknir. Mér þykir vænt um, að heilbr.- og félmn. hefur tekið þetta til athugunar, svo að eftir hennar till. má heita örugt, að læknir verði á Eyrarbakka. Ég held, að ég hafi farið fram á, að læknirinn hefði aðsetur á Eyrarbakka, en um það hefur n. ekkert ákveðið.

Eins og kunnugt er, hefur nú um langt skeið verið læknissetur á Eyrarbakka. Það virðist því eðlilegt, að svo sé áfram, enda mundi flutningur á læknisbústað hafa ýmsa erfiðleika í för með sér. Nú hefur borizt ósk um það frá Eyrbekkingum, að læknisbústaðurinn verði þar ákveðinn, og landlæknir hefur látið í ljós, að hann muni leggja hið sama til, enda virðist það á allan hátt heppilegt. Þó telur landlæknir, að þetta eigi ekki að vera lögbundið, og færir þá ástæðu, að ýmis fleiri héruð kynnu að krefjast hins sama, en það gæti í sumum tilfellum verið óþægilegt.

En þar sem nú er í ráði að reisa læknisbústað á sumri komanda í þessu héraði, þá er mér mikið kappsmál að fá ákveðið, hvar hann skuli vera. Ég hef þó ekki flutt brtt. við frv., en reiði mig á loforð heilbrigðisstjórnarinnar í þessu máli og vænti, að því sé vel komið, þótt brtt. verði ekki flutt, enda illa farið, ef hún gæti orðið til að tef ja málið á einhvern hátt. Ég mun því sætta mig við þá afgreiðslu, sem n. leggur til, og vænti, að Alþ. afgr. þetta mál, áður en því verður frestað.