22.02.1944
Neðri deild: 16. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti. — Ég lýsti yfir afstöðu minni í þessu máli við 2. umr. og flutti brtt. um að skipta núverandi Eyrarbakkalæknishéraði og stofna Selfosslæknishérað. Hins vegar tjáði ég mig ánægðan með þá breyt., að það yrði bundið í l., að aðstoðarlæknir yrði settur í þetta hérað. Ég hefði frekar kosið, að þetta yrði bundið í l., en eftir atvikum varð ég sammála um að fallast á brtt. þá, er hér liggur fyrir og kveður á um, að Egilsstaðahérað og Selfosshérað skuli ganga fyrir öðrum héruðum um. aðstoðarlækna. Ég lít svo á, að með því ákvæði geti fólkið sjálft ráðið, hvort það fær lækni eða ekki, því að héraðslæknar gætu varla spornað móti því, ef fólkið kysi aðstoðarlækni. Ég var því með þessari till., þótt ég hefði frekar kosið, að það yrði bundið í l., eins og ég hef þegar tekið fram.

Hér er fram komin brtt. frá hv. þm. G.-K. um, að Keflavíkurhérað og Grindavíkurhérað verði sér um héraðslækni. Um þessa till. vildi ég aðeins segja það, að ég gæti verið henni samþykkur, en lít hins vegar svo á, að þessi skipting, eins og hún er tekin fram í till., sé alls ekki heppileg. Frsm. n. minntist líka á þessa skiptingu, t.d., að það væri eðlilegra, að Njarðvíkurhreppur og jafnvel fleiri hreppar teldust til Keflavíkurhéraðs, en ekki Grindavíkurhéraðs. Mér dettur nú í hug, hvort það væri ekki rétt, að n. fengi þessa till. til athugunar og gæti þá í samráði við hv. flm. athugað, hvernig úr þessu mætti bæta.