11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

202. mál, hafnargerð í Ólafsvík

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Með l. nr. 60 frá 1919 eru veittar til hafnargerðar í Ólafsvík 175 þús. kr. Þetta var þá veitt eftir öðrum reglum heldur en nú er veitt fé úr ríkissjóði til hafnargerða, þar sem þetta er aðeins 1/4 kostnaðar, en 3/4 hlutar verða svo eftir þeim l. að koma úr héraði.

Nú er hér í þessu frv. farið fram á, að þessu sé breytt og sett í meira samræmi við núverandi hafnarl. á öðrum stöðum á landinu. Og er hér gert ráð fyrir, að framlagið verði hækkað upp í 280 þús. kr., og miðast það við, að ríkissjóður leggi fram 2/5 kostnaðar, en 3/5 kostnaðar komi úr héraði. Í 1. gr. frv. eru sett ákvæði um það, að með framlagi ríkissjóðs teljist fjárveitingar þær, sem þegar hafa verið veittar í fjárl., þó þannig, að þessi ákvæði um hlutfallsgreiðslurnar verki ekki aftur fyrir sig. — Ég fyrir mitt leyti hefði haft tilhneigingu til þess að breyta þessari gr. í þá átt, að ákvæði 1. gr. um hlutföllin 2/5 og 3/5 væru einnig látin ná til þess hluta, sem áður er veittur, vegna þess að mér er kunnugt um, hve miklar fórnir menn þarna heima hafa fært, sem staðið hafa að þessum mannvirkjum, og það langt um getu fram og fram yfir það, sem átt hefur sér stað annars staðar um hafnarbætur. En þetta mál hafði gengið í gegn í hv. Nd., og ég vildi þá ekki hreyfa þessari breyt., sem kannske hefði orðið til þess að spilla fyrir því, að þær kjarabætur, sem um er að ræða í frv., næðu fram að ganga á þessu þingi. Það hefði einnig verið ástæða til að breyta þessum l. að ýmsu öðru leyti, m.a. 10. gr. l., þar sem ákveðið er, hvernig skuli taka inn lestargjöld, vitagjöld o.s.frv. Venjulega eru ákvæði um það í l., hve háan hundraðshluta taka megi af afla og um lestargjöld og vitagjöld o.s.frv. En í þessum l. er aðeins gefin heimild til að semja um þetta reglugerð, sem síðar sé staðfest af ráðuneyti. Og þessi gjöld í Ólafsvík geri ég ráð fyrir að hafi verið sett miklu hærri en annars staðar, vegna hins lága framlags ríkissjóðs eftir l. frá 1919. Okkur í n. þótti ekki ástæða til að senda frv. aftur til hv. Nd. af þessum ástæðum, og sérstaklega eftir að hæstv. samgmrh. hafði lýst yfir, að það mundi verða undirbúin almenn hafnarlöggjöf fyrir næsta þing. — Ég vil taka þetta fram til þess að vekja athygli á því, að þótt þessi lagabreyt. sé gerð hér, þá eru l. alls ekki færð í sama horf og almennt er um hafnarl. á landinu.

Sjútvn. leggur einróma til, að frv. sé samþ. óbreytt, en væntir þess, að þegar alinenn hafnarlöggjöf verður samin, verði einnig þess gætt, að sömu reglur gildi um þessa höfn og um hliðstæðar hafnir annars staðar á landinu.