05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2396)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Það er nú því miður ekki gott fyrir mig að gefa hv. þm. þær upplýsingar, sem hann æskir eftir. Í fyrsta lagi af því, að hér er ekki um stjórnarfrv. að ræða, hefur ekki verið rætt í ríkisstj., en er komið frá menntmn. hv. Nd. Og svo í öðru lagi af því, að ég er ekki eins mikill sérfræðingur í mannvirkjagerð og þessi hv. þm. Hann er mjög á öðru máli en þær stofnanir, sem leitað hefur verið til. Eru umsagnir þeirra prentaðar með grg. frv. Þessar stofnanir eru: Verkfræðingafélag Íslands, Húsameistarafélag Íslands og teiknistofa landbúnaðarins. Allar þessar stofnanir mæla mjög eindregið með frv. Aftur á móti er núv. húsameistari ríkisins ekki með því, og eru aðalrök hans þau, að þetta hafi í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð. Ég er, sem sagt, ekki svo vel að mér, að ég treysti mér til að gagnrýna umsagnir þeirra aðila, sem mælt hafa með þessu frv., né heldur umsögn húsameistara ríkisins. Smekkur manna er vitanlega mjög misjafn um slíka hluti. T. d. nefndi hv. þm. sem dæmi mannvirki, þar sem slík samkeppni hefur farið fram um hugmynd. Það er sjómannaskólinn. Hv. þm. finnst vafalaust ekki hafa tekizt vel um lausn þess máls, en ég held, að hann sé þar á öðru máli en allur almenningur. Svo mætti nefna önnur dæmi, t. d. þjóðleikhúsið. Ég geri ráð fyrir, að samkv. smekk þessa hv. þm. hafi það tekizt mjög vel. Aftur á móti er fjöldi manna, sem lítur öðrum augum á það mál og þykir það hafa tekizt verr en skyldi. En þetta er smekksatriði.

Hv. þm. spurði að því, hvað þetta ætti að vera víðtækt. Það kemur greinilega fram í frv., hvað n., sem flytur það, hugsar sér að hafa þetta víðtækt, og meira get ég ekki um það sagt, því að ég hef ekki samið frv.

Í 1. gr. frv. segir, að samkeppni skuli fara fram um hugmyndir að meiri háttar byggingum og mannvirkjum, ef ráðherra eða þeim, sem verkið lætur framkvæma, þykir ástæða til. Þetta hefur verið gert hingað til, og er því ekki hér um neina breyt. að ræða. Nýmæli með þessu frv. eru ekki önnur en þau, að settar eru um það reglur, hvernig slík samkeppni skuli fara fram. Hins vegar er það sett á vald stj., hvað hún gerir mikið af því að láta slíka samkeppni fara fram.

Um kostnað er einnig tekið fram í þessu frv. Í 3. gr. er kveðið svo á, að verðlaun, kostnað við útboð og þóknun dómnefndarmanna greiði sá, sem mannvirkið reisir.

Þá minntist hv. þm. á þjóðminjasafnið í þessu sambandi og upplýsti, að fé hefði verið gefið til þess að láta fara fram samkeppni um þessa byggingu. Ég hef ekki heyrt um þetta getið fyrr en nú. Hins vegar er búið að fela ákveðnum mönnum að gera teikningu að þjóðminjasafnshúsinu. Það eru þeir Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson. Þetta var ákveðið samkv. einróma till. þeirrar n., sem fráfarandi stjórn setti til þess að hafa verkið með höndum. Í þessari nefnd er m. a. þjóðminjavörður, og nú hefur verið bætt við í nefndina öðrum sérfróðum manni, sem er Kristján Eldjárn.

Því miður get ég ekki gefið hv. þm. frekari upplýsingar.