22.02.1944
Neðri deild: 16. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páli Zóphóníasson):

Ég vil segja það út af þessari brtt., að mér þykir þetta hvort tveggja dálítið leiðinlegt. Annars vegar er um það að gera að styðja hv. 11. landsk. um það, að málið fari aftur til n. Mér þykir þetta leiðinlegt, því að málið verður að fá framgang á þessu þingi.

Læknisbústaðurinn og sjúkraskýlið á Brekku brann til kaldra kola nú um áramótin, og verður ekkert gert til að koma upp bústað handa lækninum, fyrr en búið er að ákveða, hvort sameina eigi Hróarstunguhérað og Fljótsdalshérað í eitt hérað. Þá fyrst verður hægt að hefjast handa um að sjá héraðslækninum fyrir samastað. Af þessum ástæðum er mér mjög illa við allan drátt á þessu máli, og mun ég því ekki taka undir það, að málið verði sent til n. og athugað þar að nýju.

Hins vegar er mér mjög ljúft að óska eftir þessu, af því að það er í rauninni mikilmennskugorgeir að bera fram brtt. við frv. á síðasta stigi málsins án þess að ræða það hið minnsta við þann aðila, er í hlut á og hefur yfir þessum málum að segja, heilbrigðisstjórnina, og án þess að hafa undirbúið málið heima fyrir hið minnsta. Að þessu leyti væri mér ljúft, að frv. færi aftur til n., svo að landlækni gæfist kostur á að láta uppi álit sitt um þetta, því að ég álít, að menn þurfi að heyra álit hans og hvað hann vill leggja til málanna. Að fleygja fram brtt. á síðasta stigi málsins, eins og hér er gert, þykir mér fjarstætt því að vera eins og vinnubrögð eiga að vera hér á hæstv. Alþ. Ég mundi því ekki setja mig á móti því, að málið færi til n., svo að landlæknir fengi það til athugunar, ef ég teldi, að það mundi ekki verða til þess að tefja fyrir málinu. Þess vegna mun ég láta það hlutlaust, hvort málið verður tekið af dagskrá og fari nú til n., því að það eru yfirleitt engin vinnubrögð að fleygja fram brtt. við mál án þess að bera hana undir þann aðila, sem yfir þessum málum hefur að ráða að landslögum og bezt er málunum kunnugur.