16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

173. mál, útsvör

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Í gildandi skattal. er svo ákveðið, að útgerðarmenn megi draga frá tekjum sínum, áður en þær eru skattlagðar, og fé þetta skuli lagt í varasjóð eða nýbyggingarsjóð. Einnig er svo ákveðið í gildandi skattal., að borga skuli 90% af skattskyldum tekjum, sem nema yfir 200 þús. kr., í nýbyggingarsjóð. Þeir, sem hafa yfir 200 þús. kr. tekjur, sleppa við útsvar af þeim hluta teknanna, sem í nýbyggingarsjóð fer. Ekki er tekið fram í l. sams konar ákvæði um lægri tekjur. Þetta hefur orðið til þess, að í sumum bæjar- og sveitarfélögum hefur nýbyggingarsjóðstillag útvegsmanna ekki verið tekið til greina við niðurjöfnun útsvara, þannig að þeir hafa orðið að greiða útsvar einnig af þeim tekjum, sem gengið hafa til nýbyggingarsjóðs. Í frv. þessu leyfi ég mér að leggja til, að í útsvarsl. sé sett það ákvæði, að ekki megi leggja útsvar á þær tekjur, sem ganga til nýbyggingarsjóðs samkv. skattal.

Á síðasta Alþ. var flutt frv. samhljóða þessu, en það dagaði uppi. Vona ég, að svo fari ekki í þetta sinn, og legg til, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar.