20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2415)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Þó að liðið sé á fundartímann, ætla ég mér að segja um þetta mál nokkur orð, en það hagar svo til, að enn eru ekki komin fram öll fylgiskjöl, sem fram munu koma í málinu, en ég geri ráð fyrir, að málið verði tæplega útrætt í dag, og vil ég spyrja hv. 2. þm. Árn., form. menntmn., hvort honum sé ekki kunnugt sem form. n., að vegamálastjóri hafi óskað eftir að fá sum skjölin, sem prentuð eru með mínu nál., og hvort hann hafi ekki hugsað sér að gera eins konar framhaldsálit í þessu máli. Ég álít, að það skipti talsverðu máli, að áður en 2. umr. sé lokið komi fram frá þessum aðilum öll gögn, sem þeir vilja leggja fram um það. Mér þætti einnig vænt um, ef hæstv. samgmrh. gæti verið viðstaddur þessa umr., því að ég þarf að leggja fyrir hann spurningu sem vitamálastjóra, sem n. hefur ekki getað gert, eins og málinu er háttað gagnvart honum sem ráðh., en hann getur gefið okkur af sínum kunnugleik af vitamálum upplýsingar, sem vantar.

Ég ætla mér, af því að ég býst ekki við, að málið verði ýtarlega rætt á þeim stutta tíma, sem er eftir af þessum fundi, að gefa stutt yfirlit yfir þetta mál, sem er lítið fyrirferðar, en þýðingarmikið í sínum afleiðingum, vegna þess að það liggur fyrir athugun, sem n. hefur látið gera.

Það virðist, að frv. sé upphaflega borið fram að tilhlutun ungra manna, að mestu leyti verkfræðinga, sem ekki hafa af skiljanlegum ástæðum fengið enn verulegan starfa hjá ríkinu, hafa kannske of lítið að starfa eða starfa hjá einkafyrirtækjum. Þessir menn munu hafa beitt sér fyrir, að þetta frv. var flutt í Nd. á fyrra þingi. Það dagaði þá uppi, en nú hefur menntmn. Nd. tekið það upp aftur og flutt það án þess að kryfja það nokkuð verulega til mergjar, sem sést af því, að n. leitar sér ekki upplýsinga, sem er þó mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli. Það er nefnilega komið í ljós nú, að Reykjavíkurbær er á móti því, að þetta frv. nái til hans. Menntmn. Nd. hefur ekki vitað þetta og ekki snúið sér til þeirra starfsmanna ríkisins, sem þetta mál snertir mest. Þannig er öll meðferðin í Nd. mjög losaraleg, og hv. þm. hafa sýnilega ekki hugsað um að afla réttra gagna í málinu, og m. a. er það af því, að þeir, sem hafa verið fram á í Verkfræðingafélaginu, það eru ekki menn, sem eru kunnir verkfræðingar eins og Geir Zoëga og Emil Jónsson, heldur menn, sem hafa eitthvert lærdómsvit, en ekki eru sérstaklega mikið inni í þessum hlutum, eins og rafmagnsfræðingar og efnafræðingar. Þetta er mikil veila í meðferð þessa máls, því að það er fyrst í þessari d., sem hafa komið fram frumgögnin í málinu.

Ég ætla að geta þess strax, að við meðferð málsins kemur það í ljós, að þær þrjár skrifstofur, sem þetta mál snertir mest, eru allar á móti málinu. Skrifstofa húsameistara ríkisins og skrifstofa vegamálastjóra álíta málið skaðlegt fyrir þá starfsemi, sem þeir sinna, og þegar málið er sent til borgarstjórans í Reykjavík, leggur hann það fyrir bæjarráð, og þá kemur tvennt í ljós, annars vegar, að sá sérfræðingur bæjarins, sem hefur umsjón með húsagerð, lýsir yfir, að sér mundi ekki koma til hugar að taka við hugmyndum úr slíkri samkeppni og framkvæma þær. Ég býst við, að þessi hans viturlegu ummæli hafi haft áhrif á meiri hl. bæjarráðs. (BBen: Hann var þar alls ekki til kvaddur og vissi ekkert um það.) Því meira hrós er það um bæjarráð, að það skyldi af sínum eigin fullkomleika komast að sömu niðurstöðu og sá ágæti húsameistari, sem var þar ekki til kvaddur. Þetta sýnir þá bara ágæti bæjarráðs Reykjavíkur, og vil ég sízt af öllu kasta nokkurri rýrð á jafnvirðulega stofnun, einkum þar sem ég er á sömu skoðun og það í þessu máli. Í stuttu máli, sú niðurstaða, sem bæjarráð kemst að, er sú, sem það lýsir yfir skýrt og skorinort, að það vilji hvorki heyra þetta mál né sjá fyrir sig, en sé, eins og þeir segja, ágætt fyrir stjórn og þing að hafa þetta, því að fyrst þeir séu að skemmta sér við svona hluti, þá sé það prýðilegt og bezt, að þeir njóti þess, þó að það sé langt fyrir neðan það, sem höfuðstaðurinn geti fellt sig við. Þetta allt er og bezta gamanmynd í Speglinum.

Nú hafa tveir meðdeildarmenn mínir réttilega séð, að það nær ekki nokkurri átt að ætla að misbjóða höfuðstaðnum með því að láta beygja sig undir þetta frv. Nú vill svo til, að það eru líka aðrir aðilar, sem koma þar við og eru hliðstæðir yfirhúsameistara. Þeir hafa ekki séð ástæðu til þess að kveða jafnskýrt að orði og hann. Þeir hafa látið skiljast, að þeir búast ekki við að sinna þessu máli mikið, en mér skilst, að eftir að þeir fréttu, hversu myndarlega Reykjavíkurbær tók í þetta, hafi þeir hugsað um að senda meiri hl. n. og þessari virðulegu d. kveðju sína. Mér þykir ekki ósennilegt, að þeir hafi komizt að sömu niðurstöðu, að þeir óskuðu ekki eftir að láta gera grín að sér og vilji ekki láta bjóða sér það, sem ekki þykir boðlegt fyrir aðra.

Þetta eru nú heldur slæmar fréttir fyrir meðdeildarmenn mína og þá, sem að frv. standa í Nd. Þessi d. hefur ekkert um þetta sagt enn þá. Eins og frv. liggur fyrir, má segja, að meiri hl. ætlist til þess að bjóða mönnum eins og Geir Zoëga og Guðjóni Samúelssyni það, sem hinn ungi húsameistari Reykjavíkur vill ekki láta bjóða sér. Það væri ekki gott, ef ríkið tapaði 3 mönnum úr sinni þjónustu, mönnum, sem flestir telja, að ekki væri gott, að færu burtu, og sérstaklega væri það slæmt, þegar það kæmi í ljós, að þeir, sem að frv. standa, vita bara alls ekkert um málið, eru alveg ókunnugir því, sem gert er erlendis, og ætla að ganga þvert á móti íslenzkri reynslu. Og það er spaugilegt, að frsm. meiri hl. og sumir sérfræðingar, eins og efnafræðingar og húsameistari Reykjavíkur, skilja alls ekki þetta mál. Þeir neita, að þeir viti um aðalatriði málsins, sem fram voru tekin í athugasemd um frv. bæði í fyrra og nú.

Þess vegna lítur taflið þannig út núna, að það eru miklir möguleikar fyrir Alþingi að losa sig við 3 mjög eftirsóknarverða forstöðumenn í landinu. Og þetta er gert fyrir það, sem algerir viðvaningar úti í bæ skjóta inn í frv. í Nd., kannske til smávægis hagnaðar fyrir sig. Þetta er ójafn leikur, og hann mundi enda með því, að ekki aðeins þessir menn færu, heldur er gert ráð fyrir því, að fleiri dugandi menn færu. Þeir geta sagt eins og Einar Sveinsson: Við skulum kannske vera vitamálastjórar og húsameistarar í landinu, en við viljum ekki taka í mál, að okkur sé misboðið.

Þess vegna er það, að meiri hl. n. hefur möguleika til þess að svipta ríkið þessum kröftum, sem það hefur nú, og er þá augljóst, að annaðhvort verður að fella frv. niður eða ómögulegt verður að fá dugandi menn til þess að standa fyrir þessum framkvæmdum. Þannig liggur málið fyrir.