27.02.1945
Efri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Þegar skilið var við þetta mál síðast, voru ekki komin fram öll rök í því, og vil ég fara nokkrum orðum um kjarna málsins. Þegar umr. um þetta var slitið síðast, kom í ljós, að 4 starfsmenn ríkisins höfðu sent Alþ. kveðju sína ásamt mjög alvarlegri gagnrýni á þetta og vilja ekkert með það hafa. Hæstv. menntmrh. er sá eini, sem mælt hefur með þessu. Ég hef minnzt á ummæli vegamálastjóra, þar sem hann segir álit sitt á þessu, og get ég látið útrætt um það.

Þá kem ég að Herði Bjarnasyni, skipulagsstjóra ríkisins. Hann bendir á, að gömul heimild er í lögum til að hafa samkeppni milli lærðra og leikra varðandi tiltekin atriði í skipulagi kaupstaða og kauptúna, en sú heimild hefur aldrei verið notuð. Skipulagsstjórinn er ekki myrkur í máli, og miðar öll grg. hans að því að sýna fram á, að frv. sé byggt á ónógri þekkingu á meginatriðum byggingarframkvæmda og eðlilegum undirbúningi og forstöðu við slík verk. Og segir hann m. a. á einum stað í grg. sinni:

„Um samkeppni í húsagerð almennt og byggingarlist leyfi ég mér að taka þetta fram: Er þar venjulega um tvenns konar samkeppni að ræða, sem greina verður mjög skýrt á milli, annars vegar hugmyndasamkeppni, þar sem þátttakendum eru engin sérstök skilyrði sett um verkefnið, sem leysa skal. Er þar venjulega leitað hugmynda um, hvernig og hvað byggja skuli á tilgreindu landssvæði eða lóð.“

Og enn fremur segir hann:

„Gera verður ákveðinn greinarmun á hugmyndasamkeppni og venjulegri samkeppni, sem fylgir lýsing þess, sem krafizt er og að mínum dómi hentar mun betur okkar aðstæðum.“

Ég hef álitið heppilegt að greina svo frá orðum Harðar Bjarnasonar, því að ef þau reynast rétt, þá er frv. algerlega dauðadæmt.

Þetta liggur í því, að frv. gerir ráð fyrir svo gífurlega miklum umbótum á þann hátt, að bæði ríkisstj., bæjarstj., sveitarstj. og félagsn. geta boðið út til hugmyndasamkeppni. Og svo sé hugmyndunum fleygt í einhverja ríkisstofnun eða bæjarstj., sem á að vinna úr því. Þetta fullyrðir skipulagsstjóri, að hvergi sé dæmi um. Hitt er víst, að víða er leitað að hugmyndum alveg laust við verklegar framkvæmdir, eins og skipulagsstjóri bendir á.

Þar næst kemur húsameistari að því, að þetta frv. sé nokkuð stórt í sniðunum, því að það nái til allra bygginga, sem ríkið geri, og margra af þeim, sem bæjar- og sveitarfélög láta reisa.

Enn fremur getur það náð til brúa hjá vegamálastjóra, vitabygginga og hafnarmannvirkja vitamálaskrifstofunnar. Og sömuleiðis gæti það gripið inn í störf teiknistofu landbúnaðarins og skrifstofu Reykjavíkurbæjar og hafnarframkvæmdir. Ef t. d. kemur að því, sem Alþ. hefur samþ. fyrir nokkru, að hér í Reykjavík komi stór skipasmíðastöð, sem ríkið leggi í, en Reykjavíkurbær þó meira, væri eftir frv., ef það yrði að l., hægt að heimta hugmyndaútboð á þessu öllu saman. Það mundi standa nokkuð lengi, svo að það yrðu kannske óteljandi hugmyndir um einstakar „dokkir“ og einstaka „slippi“, sem þar þyrfti að gera.

Þá tekur húsameistari fram, að þetta geti orðið nokkuð kostnaðarsamt allt saman og vandasamt, margir húsbændur. Í hæstv. ríkisstj. 6 menn, borgarstjórinn í Reykjavík og fjölmargar n., sem standa fyrir byggingu skólahúsa, sjúkrahúsa o. fl., og hver þessara aðila um sig getur krafizt, að keppt sé um hugmynd um þær byggingar.

Þá fullyrðir húsameistari enn fremur, eins og skipulagsstjóri, að þessi samkeppni, sem hér er um að ræða, hefur aldrei verið viðhöfð hér á landi og ekki heldur erlendis í því lögbundna formi, sem hér er átt við. Húsameistari fullyrðir næst, sem fyrr var að vikið, að í álitsgerð verkfræðingafélagsins hefði því verið haldið fram, að vanaleg samkeppni væri eins og t. d. með byggingu Neskirkju og sjómannaskólans, þar sem sá, sem fyrstu verðlaun fær, tekur einnig að sér verkið og sér um bygginguna og ábyrgðin hvílir á honum. En jafnvel samkeppni, sem fylgir full ábyrgð, þ. e. að sá maður, sem teiknar og gerir hugmyndina, tekur að sér verkið, segir húsameistari að sé mjög lítið um í nágrannalöndum okkar. Árið 1936 hafi verið í Danmörku um slíka samkeppni að ræða í 6 tilfellum og 4 í Svíþjóð. Ætti þar þó ekki að vera til fyrirstöðu, að það vantaði menn í slíkt, bæði margir húsameistarar og enginn skortur á mönnum til þess að dæma um þau verk. En út frá þessu séð virðist það harla einkennileg stefna, sem flm. þessa frv. vilja innleiða hér á landi, sem varla er hægt að telja, að sé litið við í Svíþjóð eða Danmörku, þ. e. a. s. hina ábyrgu samkeppni, um hina er ekki að ræða, sem frv. fer fram á.

Þessar röksemdir benda á það, sem ég hef hér fram tekið, að það er nokkurn veginn ljóst, að flm. þessa frv. hafa alls ekki vit haft á málinu, sem er líklegra, eða þá hitt, að þeir hafa viljað skapa þannig atvinnu, að þetta væri nokkurs konar atvinnubótavinna fyrir menn, sem ekki gátu fengið nóg að gera öðruvísi.

Þá nefnir húsameistari, að hverju hann starfi nú. Á hans skrifstofu eru 3 menn, og hann telur upp helztu byggingar, sem á hans teiknistofu sé nú unnið að, svo sem: húsmæðraskóla í Borgarfirði og á Ísafirði, gagnfræðaskóla í Reykjavík og á Siglufirði, fæðingarstofnun og hjúkrunarkvennaskóla í Reykjavík, barnaskóla á Ísafirði, farsóttahúsi í Reykjavík og spítala á Akureyri. Síðan hefði húsameistari getað bætt því við, að hann vinnur hvern dag að þjóðleikhúsinu meira og minna og sjálfsagt undirmenn hans líka.

Það segir sig sjálft, þegar þessir fáu menn, sem vinna hjá ríkinu, afkasta svona mörgum verkum varðandi þessar stórbyggingar á ári og fleiri þó en hér er talið, þá sést, hvað það mundi kosta, ef þessu öllu væri sleppt lausu, ef t. d. Ísafjörður yrði að fara að fá húsameistara til þess að taka að sér sinn húsmæðraskóla og sinn barnaskóla o. fl. Slíkt mundi hækka stórkostlega byggingarkostnaðinn, sennilega 5 % af byggingarkostnaðinum. Og þá getur maður reiknað, hvað þetta mundi kosta í svo stórum byggingum eins og hér er um að ræða, ef allt þetta væri komið í l., eins og stefnt er að í frv.

Þá víkur húsameistari að því, að í þessum mikla glundroða, sem hér á að skapa, yrði erfitt fyrir stj. að koma við dómnefndarskipun. Ætlazt er til þess, að 5 menn dæmi um hvert verk. En eins og húsameistari hefur bent á, mun þetta stranda á skorti á hæfum mönnum. Það er um svo tiltölulega fáa menn að ræða, og ef um margar samkeppnir væri að ræða, þá yrði stj. að fara til viðkomandi sérfræðinga og spyrja þá, hvort þeir ætli að keppa, sem er afar óþægilegt, þegar um keppni er að ræða. Það er ekki víst, að þeir vilji segja það allir, hvort þeir ætli að keppa. Það er því eðlilegt, að stj. yrði í vandræðum í mörgum tilfellum, því að þeir, sem ætlað hafði verið sæti í dómn., höfðu hugsað sér að keppa. Útkoman yrði þá sú, að óvanir menn væru látnir dæma um verkið.

Þegar keppt var um sjómannaskólann, var það aðallega byggingarn., sem þar réði, skólastjórar sjómanna- og stýrimannaskólans og, að ég hygg, formaður sjómannafélagsins, sem var í byggingarn. Þetta var skynsamlegt yfirleitt, því að þeir áttu helzt að vita, hvernig skólinn skyldi gerður. Svo var bætt við tveimur öðrum mönnum. En þetta sýnir samt sem áður, að ef alveg á að fara eftir sérkunnáttu, þá hefur samt sem áður ekki tekizt að fá þetta fram við þá stærstu byggingarsamkeppni, sem hér hefur verið gerð.

Næst bendir húsameistari á, að miklir erfiðleikar verði við framkvæmd þessarar hugmyndasamkeppni, ef það á að vera svo, eins og frv. gerir ráð fyrir, að þeir, sem þátt taka í samkeppninni, bera raunverulega enga ábyrgð á verkinu. Þetta hefur Geir Zoëga tekið fram, að hægt væri að gera brú á pappírnum, þó að ómögulegt væri að framkvæma slíkt.

Húsameistari bendir á, að aðalvandinn hvíli eftir sem áður á teiknistofunni, sem framkvæmdirnar heyra undir. Það er ætlazt til, að uppkastið liggi frammi til athugunar fyrir almenning um viku skeið, og er eðlilegt, að menn skoði þær og um þær myndist ýmsar skoðanir og flokkar. Einum lízt vel á þetta, öðrum á hitt, og þrjár viðurkenningar eru veittar í hvert skipti. Þetta gerir það að verkum, að hendur þeirra, sem eiga að taka að sér að sjá um verkið, eru bundnar; þeim er sagt að byggja eftir þessum uppdrætti, sem dómn., og kannske almenningsálitið telur fallegast að ytra útliti, enda þótt húsameistari, sem sagt er að taka að sér verkið, sjái ekki leið til þess að samrýma það ytra útlit t. d. fyrirkomulagi innanhúss.

Það mætti taka hliðstætt dæmi, sem er ef til vill nær hinu daglega lífi manna, og menn skilja það þá ef til vill betur, og þá einnig, af því að hér munu vera menn í þessari hv. d., sem mjög hafa verið riðnir við sjávarútveginn, en þetta dæmi er einmitt þaðan. En það hefur nýlega komið fram krafa hér í bæ frá sjómannafélaginu, sem er í því fólgin, að á hverju skipi skuli vera öryggisnefnd úr flokki háseta. Þessi n. á að geta gripið fram fyrir hendur skipstjórans, þegar henni þykir þess þurfa. En af því að þetta er dæmi úr daglega lífinu, vita menn það og skilja betur, að á hverju skipi verður að vera húsbóndi. Alveg eins er það í stríði. Það er ekki vafi á því, hvernig þetta mundi fara, ef þessi regla væri upp tekin á sjónum. Öll stjórn yrði uppleyst og allur agi, og það væri gersamlega óhugsandi að framkvæma siglingar með slíkum hætti. Mér er sagt, að fyrst eftir byltinguna í Rússlandi hafi þessi siður verið tekinn upp, og þaðan mun fyrirmyndin komin. En því mun þó hafa verið hætt síðar. Ef slíkt yrði tekið upp hér, hvað öryggisn. snertir, mundi skipstjórinn segja það sama og húsameistari: Það er ekki hægt að bera ábyrgð á skipinu, ef aðrir taka þannig fram fyrir hendur manns, að ekki er hægt að stjórna því.

Að síðustu segir húsameistari ríkisins um þetta frv. í álitsgerð sinni: „Sú ríkisstjórn, sem hefur komið framkvæmdum opinberra bygginga í þetta horf, mundi áreiðanlega tiltölulega fljótt sannfærast af reynslunni, að það er ekki tilviljun, að engin þjóð hefur fram að þessu lögfest skipulag áþekkt því, sem mælt er með á þskj. 562.“

Ég hleyp þá yfir fskj. 4, því að þar er ekkert nema það, að tveir menn úr Verkfræðingafélaginu gera till. um skipun dómn.

Næst kemur að því mjög merkilega atriði, bréfi Einars Sveinssonar húsameistara Reykjavíkurbæjar og Jóns Vestdals. Þeir skrifa þetta bréf eftir að þeir höfðu verið á fundi hjá okkur í menntmn. og rætt málið við okkur. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 1. gr. frv. er það skilgreint, til hvers konar samkeppni frv. skuli ná, en það er samkeppni um „hugmyndir, frumáætlanir og frumdrætti að meiri háttar opinberum byggingum og mannvirkjum.“ Hafa, að því er okkur er kunnugt, aldrei farið fram hér á landi annars konar samkeppnir en þær, sem frv. gerir ráð fyrir.“ Í þessu kemur fram þessi stórkostlegi misskilningur hjá þessum mönnum, sem líka frv. er byggt á. Þeir virðast ekki hafa hugmynd um það, að t. d. Sigurður Guðmundsson, sem vann keppnina um sjómannaskólann, gerði ekki aðeins hugmyndina um hann, heldur sá hann um verkið, og það er með allt öðrum hætti en frv. gerir ráð fyrir. Og þeir bæta við, þessir tveir menn: „Eins og áður er tekið fram, hafa samkeppnir farið fram hér á landi um meiri háttar mannvirki, en allt hefur verið á reiki um undirbúning að slíkum samkeppnum og skipun dómnefnda.“ Þetta er beinlínis alveg rangt, í hvert skipti hafa verið valdir til þess bæði byggingarn. og fleiri, alveg eins og gert er ráð fyrir hér í frv. En svo endar þetta bréf á þann hátt, sem mjög skýrir það, hvers vegna Reykjavíkurbær hefur alveg dregið sig út úr þessu máli. Þar kemur fram sérskoðun Einars Sveinssonar: „Vegna umræðna þeirra, sem fóru fram á áðurnefndum fundi menntamálanefndar, vill annar okkar, Einar Sveinsson, taka það fram sérstaklega sem sitt álit, að hann telji það æskilegt, að sú regla verði yfirleitt viðhöfð, þegar samkeppnir um húsbyggingar fara fram og hentugar lausnir berast, að sá, sem sigur ber af hólmi, fái tækifæri til þess að gera fullnaðarteikningar af húsinu og sjá um byggingu þess. Fæstum húsameisturum mun það vera geðfellt né fara það vel úr hendi að framkvæma hugmyndir annarra húsameistara. Álit þetta getur stundum einnig átt við önnur mannvirki, en þó mun það síður vera reglan.“

Í þessu kemur það fram, sem í raun og veru kollvarpar alveg því gagni, sem að frv. átti að verða, með vitnisburði þessara tveggja manna. Fyrst kemur í ljós, að þeir hafa ekki um það hugmynd, um hvað frv. er, þrátt fyrir það, þótt það væri útskýrt fyrir þeim. Svo kemur Einar Sveinsson, og hann vill, að öll samkeppni verði gerð ábyrg. Það er ekkert að segja við því. Húsameistari og Geir Zoëga hafa ekkert á móti því. Ég býst við, að Geir Zoëga hefði ekkert á móti því, ef t. d. hægt væri að bjóða út hugmynd að Ölfusárbrú og það yrði ábyrg samkeppni, ef fengjust forsvaranlegir verkfræðingar til þess að taka svo að sér verkið. En Geir Zoëga mundi ekki telja sér sæmandi, að einhver gerði till. um brúna og svo ætti hann að framkvæma það. En það er það, sem frv. fer fram á. En Einar Sveinsson sér, í hvaða óefni er komið, og hann vill ekki framkvæma hugmyndir eftir þennan eða hinn, heldur einnig, að þeir, sem fást við þetta mál, beri ábyrgð á því.

Þá kemur bréf frá borgarstjóra Reykjavíkur, Bjarna Benediktssyni, frá 10. febr. 1945. Hann hefur samkvæmt ósk okkar í menntmn. lagt þetta frv. fyrir bæjarráð, sem gerir svofellda ályktun: „Bæjarráð getur ekki fallizt á, að með lögum verði mælt fyrir um samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum, sem bæjar- eða sveitarsjóðir einir bera kostnað af, en telur ekki óeðlilegt, að á þann hátt verði mælt fyrir um þau mannvirki, sem ríkið kostar að öllu eða nokkru leyti.“

Þetta er ákvörðun bæjarráðs, sem borgarstjórinn tilkynnir menntmn. og þinginu. Ég býst nú tæplega við, að borgarstjórinn, sem er skýr maður, hafi getað samið þetta. Svo er mótsögnin mikil í þessu. Eða með öðrum orðum: Við viljum ekki láta koma nærri okkur með þetta, en það er hægt fyrir ríkið að gera það. Þetta mundi borgarstjórinn ekki hafa sagt eða ráðið, að það væri fullgott fyrir ríkið að framkvæma það, sem Reykjavíkurbær gæti ekki látið sér sæma.

Þá kemur umsögn frá ríkisstj. Maður gæti látið sér detta í hug, að þar hefði málið verið vandlega athugað. Það er stutt bréf líka, og það mun vera skrifað um sama leyti og bréf borgarstjóra. Bréfið er á þessa leið: „Ríkisstjórnin hefur móttekið bréf háttv. menntamálanefndar efri deildar Alþingis, þar sem óskað er umsagnar ríkisstjórnarinnar um frv. til laga um samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum.

Ríkisstjórnin hefur ekki tekið málið fyrir á fundi, en forsætisráðherra hefur falið mér að svara bréfi háttv. nefndar. Mæli ég eindregið með því, að frumvarpið verði samþ.

Undir þetta bréf skrifar Brynjólfur Bjarnason. Hér er um að ræða mál, sem allri ríkisstj. er sent til umsagnar. En hvað gerir hún? Hún heldur engan fund um það, og hæstv. forsrh. biður aðeins einn ráðh. að svara bréfinu og segja aðeins sitt álit. Er það af því, að forsrh. heldur, að þessi ráðh. muni fús til að svara vegna þess, að þetta er mál flokksmanna hans? Þeir hafa barizt fyrir þessu máli, og það eru flokksmenn hæstv. menntmrh., sem telja sér hag að því, að þetta mál nái fram að ganga.

En í núverandi 6 manna ríkisstj. eru aðrir menn, sem virðast ekki hafa fengið að vita neitt um þetta, en kemur þetta mál miklu meira við. Það hefur sýnilega ekki verið borið undir hæstv. fjmrh., en einmitt kostnaður við þetta mál mundi koma á fjármáladeildina. Og það ekki aðeins kostnaður af útboðinu og við n. og af verðlaununum, heldur það, sem mundi verða langtilfinnanlegasti kostnaðurinn, en hann er alger upplausn bygginganna, þannig að sérstakir byggingarfróðir menn tækju að sér hverja byggingu, af því að engir slíkir menn vildu vinna hjá ríkinu til þess að sinna þessu. Það er ekki aðeins það, hvað það yrði dýrara fyrir landið að því leyti, hve mikið þarf að greiða hverjum byggingarmeistara, t. d. eins og þeim manni, sem sá um byggingu sjómannaskólans, sem fékk 150 þús. kr. fyrir sína vinnu. Það er ekki þessi kostnaður, útboðskostnaður, verðlaun og verkfræðingakostnaður, heldur annað, sem er enn tilfinnanlegra, af því að það er svo langt frá því, að ríkisstj. á hverjum tíma geti haft eftirlit með þessum verkefnum. Kerfið er þannig, að allar byggingar fyrir ríkið verða miklum mun dýrari en ella, því að ef til vill hefur húsameistarinn það í huga, að þeim mun dýrari, sem byggingin verður, þeim mun hærra verður kaup hans.

Það er kannske ekki á móti því, að ég útskýri það, sem hér er um að ræða, sem ég tel leiða af þessu — og ég get sannað —, að þegar ríkisstj. hefur ekki eftirlit og getur ekki haft eftirlit með byggingum og reynsla er ekki fengin hjá þeim húsameisturum, sem eru að byrja að taka að sér stór verk, t. d. sjómannaskólann, og vil ég nefna tvo skóla, sem báðir hafa verið gerðir með samkeppni og af sama manninum, sem ekki er í þjónustu ríkisins, Sigurði Guðmundssyni byggingarmeistara, Austurbæjarbarnaskólann og Sjómannaskólann. Svo eru aðrir tveir skólar, sem ég vil taka til samanburðar, sem húsameistari ríkisins hefur gert, þ. e. barnaskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík. Ég ætla ekki að gera ýtarlegan samanburð, heldur aðeins taka eitt atriði, sem undir eins er hægt að átta sig á. Ef menn koma inn í Austurbæjarbarnaskólann, þá er því þannig hagað, að meðfram ytri brún stofanna er gangur alla leið í gegn á öllu húsinu. Og ef menn athuga, hve mikið fer í þennan gang, þá er hann 1/3 af öllu húsinu.

Sama form er haft á Sjómannaskólanum, þannig að stofur eru aðeins öðrum megin við ganginn. Við þetta fyrirkomulag verður húsið miklu dýrara og ekki aðeins það, heldur líka miklu erfiðara í notkun. Í Austurbæjarbarnaskólanum, þar sem eru um 40–50 kennarar, er það svo, að þeir þyrftu að hafa þar hentuga bíla eða reiðhjól, því að fjarlægðin er svo mikil í þessum endalausu göngum, sem hafa verið settir þar af mjög lítilli forsjá. Aftur á móti í Háskólanum og barnaskóla Akureyrar er fyrirkomulagið þannig, að gangur er eftir miðju húsi og kennslustofur báðum megin. Þetta leiðir til þess, að það er eins lítið pláss, sem fer í ganginn, og hægt er.

Ég er alls ekki að drótta því að Sigurði Guðmundssyni, að hann hafi gert þetta til þess að gera bygginguna dýrari, en ég hygg, að hann hafi ekki gert aðra skóla en þessa tvo. En ef hann hefði verið í þjónustu ríkisins, hefði hann fyrir löngu verið búinn að sjá, að kostnaðurinn yrði allt of mikill með þessum hætti. Ég tek þetta sem dæmi til þess að sýna, hve mikla fjárhagslega þýðingu það hefur fyrir þá, sem byggt er fyrir, að í hvert verk komi svo að segja nýr maður, sem ekki nýtur undangenginnar reynslu.

Það er skemmst að minnast á byggingu rafveitunnar á Siglufirði. Það er ekki vafi á því, að hefði einhver af þessum mönnum tekið verkið að sér eða haft þar yfirstjórn, húsameistari eða yfirmaður Rafmagnseftirlits ríkisins, þá hefði kostnaðurinn ekki orðið eins mikill. Það hefur komið ljóst fram hjá þm. Siglf. og uppbótarþm. Siglf., sem lýstu þessu, að það hefði verið óskaplegt los að framkvæmd verksins. Nú virðist Siglufjarðarbær vera að undirbúa stórkostlega málsókn á hendur því verkfræðingafélagi, sem tók þetta verk að sér, fyrir það, með hvernig aðferðum þetta verk hefur verið framkvæmt. En þetta eru aðeins tvö dæmi um það, hvernig fer, þegar öll bönd eru gefin laus í þessu efni.

Það hefði sannarlega verið ástæða til þess, að ríkisstj. hefði talað við hæstv. samgmrh. um frv., en undir hann heyra hafnarmál, vitamál, vegamál og brýr, og það er vitað, að þessi fyrrv. starfsmaður ríkisins sem vitamálastjóri, hæstv. samgmrh., er algerlega á móti þessu frv. Það sýnist því vera mikið missmíð á því hjá hæstv. ríkisstj. að gefa ekki samgmrh. kost á því að líta á frv.

Svo er dómsmrh., sem er m. a. settur yfir skrifstofu húsameistara, sem verður vafalaust að standa fyrir meiri háttar byggingum; hann hefur ekki heldur verið um þetta spurður. Og þegar þess er gætt, að frá þeim eina ráðh., sem eitthvað segir um frv. og mælir með því, þá er ekki reynt að koma með nokkrar röksemdir, enda var það ekki hægt, þar sem það er vitað, að þessi maður hefur haft flokkseigingjarna afstöðu til þess að láta málið ganga fram óbreytt.

Þar sem mér var það undir eins ljóst, að slíkt er ekki umsögn frá ríkisstj., heldur hefur aðeins einum ráðh. verið sýnt þetta og það þeim, sem sízt skyldi, þá vil ég leyfa mér að bera fram tvær fyrirspurnir við þessa umr., aðra til hæstv. forsrh., en hina til hæstv. samgmrh. Og þó að þeir séu ekki viðstaddir nú, vil ég leyfa mér að lesa þessar tvær spurningar upp og afhenda þær svo þessum hæstv. ráðh., til þess að þeir geti við síðari umr. svarað þeim. Og þær eru svona:

Fyrirspurn til forsrh.:

1. Álítur forsrh. viðunandi að lögbjóða það skipulag varðandi starfsemi verkfræðinga og húsameistara ríkisins, sem bæjarráð Reykjavíkur hefur hafnað fyrir hönd höfuðborgarinnar?

2. Álítur forsrh. fordæmanlegt, ef verkfræðingar og húsameistarar landsins fylgja fordæmi húsameistara Reykjavíkurbæjar og telja sér ókleift að vinna úr verðlaunahugmyndum annarra manna?

Ég vil bera þessa fyrirspurn fram vegna þess, að ekki hefur tekizt að fá nein svör frá hæstv. ríkisstj., en hins vegar liggja fyrir mótmæli frá öllum yfirmönnum þeirra deilda, sem ríkið hefur á að skipa í þessum efnum, og þar sem það er hugsanlegt, að það yrði látið varða ofsóknum á hendur embættismönnum ríkisins, ef þeir tækju ekki að sér það, sem óframkvæmanlegt er í sjálfu sér. Ég óska að fá að heyra, hvað forstöðumaður hæstv. ríkisstj. hefur að segja um þetta, og hvort hægt sé að þrýsta slíku skipulagi upp á aðra embættismenn, sem Reykjavíkurbær vill ekkert með hafa, og hvort hæstv. forsrh. telur það óafsakanlegt brot, ef verkfræðingar og húsameistarar ríkisins líta sömu augum á þetta og Einar Sveinsson.

Þá er stutt spurning til hæstv. samgmrh.: Álítur samgmrh., að frv. um hugmyndasamkeppni varðandi opinber mannvirki sé til bóta í starfsemi þeirra stjórnardeilda, sem heyra til hans ráðuneyti?

Með þessari spurningu vil ég fá fram svar frá ábyrgum manni ríkisstj., sem þekkir þetta frá sínu fyrra starfi og ber ábyrgð á stjórnardeild varðandi þetta.

Ég hef nú lokið því í þessu nál., þar sem borið er saman meginið af þeim rökum, sem liggja fyrir. Og kemur þá að því skjali, þar sem hv. meiri hl. n. lýsir sinni afstöðu. Það, sem ég tel vera þeim til sóma, að þegar þeir mæta rökstuddri mótstöðu hjá Reykjavíkurbæ, þá hverfa þeir alveg frá því að reyna að kúga þá og koma fram með brtt. um það efni. En aftur á móti, sem er kannske af því, að á þessu stigi liggja ekki eins ákveðin andmæli fyrir frá ríkisstarfsmönnum, og má segja, að þau liggi ekki fyrir enn, halda þessir menn sig við það, að frv. verði samþ. og nái til ríkisins. En að mótmæli hafa ekki komið eins sterk frá þessum starfsmönnum, hygg ég sé af því, að ef fara á að framkvæma verk eins og frv. gerir ráð fyrir, þá muni þeir heldur taka það ráð að fara burt heldur en að tilkynna það fyrirfram.

Meiri hl. n. telur, að samþ. þessa frv. hljóti að stuðla að því að efla íslenzka verkmenningu, þar sem með samkeppni á þennan hátt gefist kunnáttumönnum betri og fleiri tækifæri til að reyna hæfileika sína og vinna að verkefnum, sem glæða áhuga þeirra.

Ég vil þá benda á nokkrar kirkjubyggingar í því sambandi. Akureyrarbær reyndi, að ég hygg, tvisvar sinnum að hafa samkeppni um safnaðarkirkju hjá sér og hét verðlaunum. En það komu fram svo lítilfjörlegar hugmyndir, að sóknarn. gafst upp við að nota þetta og sneri sér til húsameistara ríkisins og bað hann að gera teikningu að kirkjunni, sem hann gerði. Næsta dæmi er kirkjan að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar var einnig boðið út, og fór einnig á sömu leið, — það bárust margar teikningar, sem ekki var hægt að nota. Byggingarn. fékk ekkert, sem hún vildi líta við. Síðan vinnur húsameistari ríkisins að því að undirbúa þessa byggingu. Þeir menn, sem aðallega hafa sótzt eftir samkeppni, hafa lítið upp úr því haft.

Nú er skemmst af því að segja, að þegar þetta mál hafði verið til umr. og það þskj., sem ég hef nú lesið úr, komið út um bæinn, þá er að sjá, að þeim mönnum, sem standa að og hafa staðið fyrir þessum málum, Geir Zoëga, Guðjóni Samúelssyni, Axel Sveinssyni og Herði Bjarnasyni, hafi fundizt skörin vera að færast nokkuð upp í bekkinn. Þeir skrifa þá n. bréf, sem gengur fyrst og fremst út á það að kippa alveg grundvellinum undan frv. Og sá eini stuðningur, sem frv. hefur fengið frá þessum tveim mönnum, Einari Sveinssyni og Jóni E. Vestdal, er mjög hæpinn, þar sem þeir enda með þeim orðum, að ef frv. verði látið ná til verkahrings þeirra, eða a. m. k. Einars Sveinssonar, þá neiti hann að framkvæma þau verk.

Það var nokkur vorkunn fyrir hv. Nd., þó að hún tæki ekki á þessu máli sem skyldi; þá höfðu ekki verið lögð fram öll gögn. Nú hafa gögnin verið lögð fram í þessari hv. d. Og það er ekki nein afsökun fyrir þessa hv. d. eftir þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið, að samþ. frv. og kasta um leið frá sér því skipulagi, sem hefur gefizt vel frá því ríkið réð í þjónustu sína Sigurð Thoroddsen eldri, Jón Þorláksson, Geir Zoëga, Rögnvald Ólafsson, Einar Erlendsson, Guðjón Samúelsson, Þorvald Krabbe og Emil Jónsson.

Þess vegna vil ég leyfa mér að bera hér fram svofellda dagskrártill.:

„Þar sem löggjöf hliðstæð þeirri, sem hér um ræðir, þekkist ekki með öðrum þjóðum, þar sem höfuðstaðurinn mótmælir henni fyrir sitt leyti og hið sama gera allir trúnaðarmenn ríkisins, sem um málið hafa verið spurðir, og þar sem sú skipun, sem mælt er með í frv., mundi fæla úr þjónustu ríkisins alla dugandi menn frá forstöðu verklegra framkvæmda, en skapa glundroða og óstjórn um slík málefni, þá þykir deildinni ekki ástæða til að láta málið ganga lengra, en tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“