28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Gísli Jónsson:

Hv. þm. S.-Þ. hefur nú haldið þriggja daga ræðu um þetta nauðamerkilega mál (JJ: Hún var liðlega 2 tímar.), sem er svo ómerkilegt, að ég held, að sé alveg sama, hvort það er samþykkt eða ekki. Það er alveg eins og um stríðsyfirlýsingu sé að ræða í stórum stíl, en þetta getur varla verið annað en stríðsyfirlýsing á hv. 7. landsk., og tekur maður það ekki alvarlega. Ég vildi þó fara nokkrum orðum um frv. og halda mér eingöngu við þau ákvæði, sem sjást í þskj. 562.

Ég vildi fyrst benda á, að ég tel varða ákaflega litlu, hvort þetta frv. verður samþykkt eða ekki, því að það er að mestu leyti heimildarfrumvarp fyrir viðkomandi ráðh., til þess að láta fram fara samkeppni um sams konar hluti og þegar hefur verið látin fara fram og ráðh. hefur talið sig hafa heimild fyrir á hverjum tíma. Svo að að því leyti er ekkert nýtt í frv., því að sagt er í 1. gr.: „Samkeppni skal fara fram um hugmyndir, frumáætlanir og frumuppdrætti að meiri háttar opinberum byggingum og mannvirkjum, ef ráðherra eða þeim, sem verkið lætur framkvæma, þykir ástæða til.“ Með öðrum orðum, það er algerlega á valdi viðkomandi ráðh., hvort hann notar nokkuð þessi 1. eða ekki, þó að þau verði samþykkt. Fyrir það tel ég raunverulega, að málið sé sára ómerkilegt í heild. En ef frv. verður samþ. og ráðh. notar það, eru honum markaðar skorður, sem ég tel, að séu heldur til hins lakara en nú. Nú hefur hann frjálsar hendur um að láta gera það eins og honum bezt þykir, en ef hann á annað borð lætur fara fram samkeppni, verður hún að fara fram innan ramma þessara 1., og það tel ég miklu lakara en er, og fyrir það eitt mun ég greiða atkv. á móti þessu frv., nema því verði breytt í það horf, sem ég get fellt mig við.

Nú hefur verið deilt ákaflega mikið um það hér, hvort fram ætti að fara samkeppni um hugmyndir annars vegar, og mér hefur skilizt á hv. 7. landsk., að hann væri tilbúinn að fella það út úr frv. Ég held, að sízt ætti að fella það út úr frv.; það ætti miklu frekar að standa en frumáætlanir og frumuppdrættir, því að ef nokkuð þarf, þá eru það nýjar hugmyndir. Til hinna teknisku atriða, að geta reiknað út og gert áætlanir, þarf aðeins lærdóm og litla guðsgáfu, en til hins, að koma með nýjar hugmyndir, þarf einhverja bjartsýni og listræni. Þess vegna finnst mér eðlilegra að takmarka meira við það en hitt.

Ég vildi leyfa mér að benda á, að þegar lesin er brtt., sem borin er fram á þskj. 1110, og það er svo fellt út úr 1. gr. 1., þá virðist mér það raska nokkuð frv., og þurfa þá að koma ýmsar aðrar breyt. fram en koma fram á þskj. Hér eiga orðin „bæjar- eða sveitarfélögum“ að falla niður, vegna þess að aðeins á að vera eftir, að boðin séu út þau mannvirki raunverulega, sem ríkið reisir, eða þau mannvirki, sem styrkt eru af ríkinu. Það eru varla önnur mannvirki, sem styrkt eru af ríkinu, sem bæjar- og sveitarfélögin ekki reisa, en ef það væru sundlaugar eða sundhallir, en sem segja má þó, að íþróttafélögin reisi, og er ekki skylt að láta fara fram samkeppni um þær eftir samþykkt þeirra breyt., sem ég minntist á. Það er ekki heldur skylt að láta fara fram samkeppni hvorki um læknabústaði né spítala, því að ríkið reisir þá ekki. Bæjar- og sveitarfélögin reisa þá alls staðar á landinu, nema þar sem um landsspítala er að ræða, svo að það fellur undir ákveðin 1., ef þessi brtt. verður samþ., og er ég ekki alveg viss um, að hv. frsm. hafi gert sér það ljóst, en ég vona, að hann geri sér ljóst, að þannig er það raunverulega. Þó að sagt sé í gr., að þetta eigi að gilda um þau mannvirki, sem ríkið styrkir, þá þegar búið er að fella burtu mannvirki, sem bæjar- eða sveitarfélögin reisa, þá fellur það ekki undir ákveðin 1., og þá finnst mér einnig, að breyta megi 2. gr., því að þar er ákveðið hér í brtt., að „einn dómnefndarmaður skal skipaður af ríkisstjórninni án tilnefningar. Er hann formaður dómnefndar og skal vera verkfræðingur eða húsameistari.“

Annar dómnefndarmaður skal skipaður eftir tilnefningu bæjarstjórnar eða hreppsnefndar. Þetta virðist mér, að skuli falla niður, ef bæjar- eða sveitarstjórnir byggja ekki.

Þriðji dómnefndarmaður skal skipaður eftir tilnefningu þess aðila, sem verkið lætur framkvæma, en það er í þessu tilfelli ætíð ríkið. Þetta hygg ég, að háttv. form. n. hafi ekki athugað.

Þá þykir mér það nokkuð mikið bákn að skipa í þetta 10 menn. Ég hygg, að 3 væri nóg.

Mér finnst, að háttv. þm. S.-Þ. ætti að hlusta, þegar hann hefur látið okkur sitja hér undir ræðum sínum í 3 daga. (JJ: Ekki fulla 3, en ég hlusta með athygli.) Þá finnst mér það ekki eðlilegt, að dómnefndin ákveði um útboðsskilmálana. Ég álít, að húsameistari ríkisins ætti að ákveða skilmálana fyrir þær byggingar, sem ríkið hefur með höndum.

Loks finnst mér það einkennilegt að láta þetta mál fara til menntmn., þar sem vitað er, að hún getur aldrei verið sammála um nokkurt mál og ræðir þau sjaldnast af viti.

Ef við gætum að, undir hvaða ráðh. þetta kemur til með að heyra, þá er það ekkert annað en skólabyggingar, sem kemur undir menntmrh. Þetta hefði öllu fremur átt að fara til allshn. Ég vil því leggja til, að umr. um málið verði frestað og því vísað til allshn. (EE: Ég legg til, að málinu verði vísað til sjútvn.)

Um málið í heild er það að segja, að ég tel, að þetta hafi sína kosti og sína ókosti. Ég get bent á, að nýlega fór fram keppni um síldarverksmiðju, og þar hlaut sá aðili verðlaunin, sem vinnur hjá ríkinu og hefur unnið að þessu í þeim tíma, sem hann á að vinna fyrir ríkið.

Ég álít, að um þetta þyrfti að setja ákvæði; ella gæti farið svo, að Guðjón Samúelsson, Geir Zoëga og fleiri þrefölduðu laun sín á þennan hátt.

Þá vil ég benda á, hvað komið getur fyrir í slíkri samkeppni.

Fyrir skömmu fór fram samkeppni um nýtízku togara. En sú teikning, sem hafði í rauninni eitthvað nýtt að færa, var ekki dæmd. En vátryggjendur fundu það út, að í henni fólst stóraukið öryggi, og keyptu hugmyndina á sama verði og fyrstu verðlaun voru ákveðin, og síðan sannfærðu þeir dómendur um, að ekkert skyldi birt, fyrr en einkaleyfi er fengið fyrir þessa tegund, og nú á mþn. sú, sem ég starfa í, ekki aðgang að þessari teikningu.

Ég segi ekki, að þetta séu rök á móti samkeppni, en þetta sýnir, að ekki er einhlítt að setja slíkt fyrir dómnefnd.

Ég vil svo út af því, sem háttv. þm. S.-Þ. sagði hér um mannvirki, segja það, að hann hefði ekki átt að minnast á kirkjubygginguna í Saurbæ. Í hana er búið að eyða miklu fé eftir till. Guðjóns Samúelssonar, en hún verður aldrei notuð fyrir annað en kartöflugeymslu eða haughús. Og það er illa farið að hafa flekað fjölda manns til að gefa fé til þessa mannvirkis.

Ég læt þetta nægja að sinni. En ég sé mér ekki fært að samþ. þetta frv. nema gerðar verði á því breytingar.