28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. En ég verð að segja, að ég er undrandi yfir, hvað á gengur út af þessu máli.

Eins og háttv. þm. Barð. gat um, er hér einungis um að ræða heimild til ráðh. Í raun og veru hefði háttv. þm. S.-Þ. getað sparað sér sína löngu ræðu, sem er sprottin af misskilningi á atriði í grg. frv., en ekki á frv. sjálfu. Þar stendur: „Í frv. þessu er gert ráð fyrir, að fram fari samkeppni, ef ástæða þykir til, um hugmyndir að öllum meiri háttar mannvirkjum, sem byggð eru fyrir opinbert fé eða njóta opinbers styrks að verulegu leyti.“

Í þetta hefur hann bitið sig. En vitanlegt er, að það helzt hér eftir sem hingað til, að ekki verður viðhöfð samkeppni, nema eitthvað sérstakt sé um að vera.

Þá stendur einnig í grg.: „Hér er aðeins átt við frumhugmyndir um fyrirkomulag og gerð mannvirkja, en þær eru mikilvægasta atriðið til þess, að þau megi takast vel. Þrátt fyrir það er mikill hluti hins sérfræðilega undirbúnings óleystur, þótt hugmyndin að því sé fengin, en hún er sá hluti verkefnisins, sem sízt fæst með lærdómi einum.“

Af þessu hefur háttv. þm. S.-Þ. ályktað, að einungis dugi að koma með hugmyndina, sem síðan eigi svo að henda í aðra til að framkvæma hana. Þetta er auðvitað fráleitt. Þeim, sem kemur með hugmyndina, verður falið að framkvæma verkið.

Á þessum misskilningi byggðist öll ræða háttv. þm. S.-Þ. Hann minnir mig á manninn, sem hljóp í ofboðshræðslu af ótta við hávaða í skóbótinni undir sínum eigin skó og hugði vera draug á hælum sér. (BBen: Hvernig fór það?) Maðurinn komst undan draugnum.

Það er ekki stafur í frv., sem styður þá skoðun, sem hann hefur haldið hér fram. Það er ekki nokkur ástæða til að ætla, að farið verði hér að hafa samkeppni um öll möguleg mannvirki. Það er ekki heldur ástæða til að ætla, að þegar samkeppni færi fram, mundu berast hinar og aðrar óhæfar hugmyndir, sem ekki væri hægt að framkvæma. Þetta er tryggt með því, að útboðsskilmálar eru settir af dómbærum mönnum um skilyrði fyrir samkeppninni. Og ef fjarstæðar hugmyndir koma fram, verða þær ekki af þessum sérfróðu mönnum dæmdar gildar og koma þá ekki til greina. Þess vegna þurfa menn ekki að óttast, að fleygt verði í þá hugmyndum, sem ekki er hægt að framkvæma. Í þriðja lagi er ekki ástæða til að óttast, að þeir verði látnir vinna úr þeim uppdráttum, sem dæmdir verða hæfir, heldur verður það falið þeim mönnum, sem áætlanirnar hafa gert. Það er svo við alla samkeppni, að hún er aðeins grundvöllur til þess að byggja á fyrir húsameistarana, en aldrei gerðar fullnaðarteikningar við samkeppnina. Það er aðeins undirbúningur húsameistara undir verkið. Það er alls ekki venjulegt, að arkitektar reikni burðarþol húsa út eða geri áætlanir um járnstyrkleika húsa. Þess vegna er sá ótti ástæðulaus, sem hér hefur komið fram í þessu efni.

Ég vildi með nokkrum orðum svara hv. þm. Barð., því að hann hélt sér að efni frv. Hann var að finna að því, að eftir úrfellinguna, sem við vildum láta gera við 1. gr. frv., væri sú gr. komin í ósamræmi við aðrar gr. frv. Hv. 6. þm. Reykv. hefur kvatt sér hljóðs, og ég býst við, að þetta verði skiljanlegra eftir ræðu hans.

Sú fyrsta breyt., sem ég geri till. um, er að felld verði úr 1. gr. orðin: „bæjar- og sveitarfélögum“ og að í stað orðanna: „opinberu fé“ í niðurlagi gr. komi: ríkisfé, þ. e. a. s., að þetta nái til mannvirkja, sem eru reist með styrk af ríkisfé. Það getur verið um margs konar mannvirki að ræða hjá sveitar- og bæjarfélögum, sem þeir aðilar reisa ekki einir, heldur með styrk af ríkisfé. Svo er um skólabyggingar og getur orðið líka um læknisbústaðabyggingar. Við höfum ekki athugað þetta, en mér datt í hug, hvort ekki mundi þurfa að breyta 2. gr. í samræmi við þetta. En ég álít eftir sem áður, að miða eigi við opinberan styrk til þessara stofnana, sem bæjar- og sveitarfélög láta reisa.

Viðvíkjandi skipun n. er aðalatriðið, hvernig þessi dómnefnd verður skipuð. Hv. þm. Barð. hefur fundið að því, að þessi n. væri of fjölmenn. Hann vill telja í henni 10 menn. En í n. eru aðeins fimm aðalmenn, og enginn varamanna verður kvaddur til starfa í n., nema aðalmaður forfallist. Þessi till. um, að mennirnir séu 5, er komin frá Húsameistarafélaginu og Verkfræðingafélaginu, sem hafa álitið, að rétt væri að hafa 5 menn í þessari n. En um þetta geta verið skiptar skoðanir. Og auðvitað getur hv. þm. Barð. komið með brtt. um þetta atriði.

Viðvíkjandi því, að hv. þm. Barð. sagði, að það yrði líka að fella úr ákvæðið um, að þriðji maðurinn í dómnefndina skyldi skipaður af aðila, sem verkið lætur framkvæma, þá er því að svara, að sveitar- og bæjarfélög og jafnvel aðrir aðilar láta reisa mannvirki, sem eru styrkt af opinberu fé, og sé ég því ekkert á móti því, að þetta standi eftir sem áður í frv. — Viðvíkjandi því, að það sé ekki dómnefndarinnar að ákveða útboðsskilmálana, þá viðurkenni ég, að ég er ekki svo vel að mér í þessum fræðum, að ég geti dæmt um það. En ég hélt, að þetta væri ein af beztu tryggingunum fyrir því, að þessir útboðsskilmálar væru þannig, að það yrðu fyrst og fremst ekki aðrir en verkfræðingar, sem tækju að sér að gera þessar áætlanir, og mundi þetta því forða frá því, að það kæmu hugmyndir frá öðrum, sem ekki hefðu nóga kunnáttu til þess að fjalla um svona hluti, og þess vegna væri þetta ákvæði til bóta. Ég tel ekki sérstaka ástæðu til að breyta þessu.

Viðvíkjandi einu atriðinu enn, sem hv. þm. Barð. minntist á, sem sé því, hvernig starfsmenn ríkisins færu að vinna verðlaun í þessu efni, þá sé ég ekki neitt á móti því, að starfsmenn ríkisins, eins og aðrir, geti tekið þátt í þessari samkeppni og unnið verðlaun, ef svo ber undir. En ég er þeirrar skoðunar, að það yrði svo sjaldan, sem þessi samkeppni færi fram, að það yrði ekki stór kostnaðarauki að því.