23.02.1944
Neðri deild: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Eftir ósk hæstv. forsrh. í gær var umr. um þetta mál frestað og því vísað aftur til n. til þess að bera það undir landlækni. N. hélt svo fund með landlækni í morgun kl. 10.

Mér finnst nú, að hv. þm. Snæf. hefði getað sparað sér nokkuð af því, sem hann sagði um landlækni, því að hann hafði aðstöðu til að tala við hann sjálfur á nefndarfundinum í morgun. En honum finnst kannske betra að tala við hann og um hann nú, af því að hann getur ekki svarað.

Um þessar till. báðar, till. þm. Snæf. og þm. G.-K., er það að segja, að landlæknir leggur ákveðið til, að þær séu felldar. Þó vill hann gjarnan láta vísa þeim til ríkisstj. í einhverju formi, svo að þær verði til athugunar, þegar tekið verður fyrir, hvernig fara á með aðra landshluta, sem svipað stendur á um og Snæfellsnes, t.d. Suðureyri við Súgandafjörð, sem er meira einangruð en Snæfellsneshrepparnir. Ég lít svo á, að fara beri að ráðum landlæknis í þessu máli.

Þá skal ég geta þess, að ég fæ nú samstundis tilkynningu um, að Njarðvíkurhreppur, sem hv. þm. G.-K. vildi taka út úr Keflavíkurhéraði, hafi boðað fund til að mótmæla þessu og krefjast að fá að vera áfram í Keflavíkurhéraði. Ég skal einnig geta þess, að allt Keflavíkurhérað, sem nú er, hefur staðið að því að fara þess á leit, að reistur verði þar spítali. Hvað um það verður, ef héraðinu er nú skipt, skal ég láta ósagt. En ég vil benda á, að ég hygg, að orsökin til þess, að þessi till. þm. G.-K. kom fram, sé sú, að annar af tveimur praktíserandi læknum, sem eru í héraðinu, hefur um skeið verið veikur og legið á sjúkrahúsi; en enginn nýr viljað setjast að í Keflavík, meðan óvíst væri, hvort hinn sjúki læknir ætti ekki afturkvæmt. Þess vegna er enginn læknir í Keflavík sjálfri nú nema héraðslæknirinn. Mér er kunnugt um, að stjórn Sjúkrasamlags Keflavíkur hefur reynt að bæta úr þessu með því að fá lækni í staðinn fyrir hinn veika lækni til bráðabirgða, þar til sæist, hvernig fer með heilsu hans, en enginn hefur fengizt enn.

Skal ég svo viðvíkjandi till. á þskj. 72 bæta við, að það er með hverju ári að breytast meira og meira í það horf, að samgöngur allar séu að og frá Borgarnesi, og ég held því, að það verði í framtíðinni sá læknir, sem Snæfellingar nota mest, en ekki Ólafsvíkur eða Stykkishólms, og sérstaklega má búast við þeirri breytingu, ef og þegar daglegir mjólkurflutningar til Borgarness hefjast.

Ég vil benda á, að hv. flm. brtt. á þskj. 72 hefur fallizt á þá stefnubreyt. að skíra læknishéruðin eftir heiti læknisbústaðanna, en svo lítið er till. hans undirbúin, að hann nefnir það bara „Suður-Snæfellsneshérað“, því að ekki er hægt að vita, hvar læknisbústaðurinn muni eiga að vera, þar sem málið er með öllu óundirbúið heima í héraði. Það er ekki hægt að skíra læknishéraðið rétt, af því að málið er svo illa undirbúið. Svo lítill er áhuginn. Og nokkuð er það seint hjá flm. till. á þskj. 72, sem sjálfur er í n., er hefur haft málið til meðferðar, að fara nú að vakna og koma með till., sem fer í allt aðra stefnu en felst í sjálfu frv.

Ég vil því fyrir mína hönd og einhverra annarra nm. a.m.k. óska, að báðar þessar brtt. verði felldar, í því trausti, að ríkisstj. ásamt landlækni athugi, hvort ekki sé hægt að gera eitthvað fyrir þá, sem erfitt eiga um læknissókn. Það er margt, sem þar gæti komið til greina, t.d. að hafa sjúkraflugvélar, eða láta héraðslækna hafa góð tæki, t.d. sjúkrabíla til að flytja sjúklinga á til sjúkrahúsa, og enn, hvort ekki þarf að hækka læknavitjanastyrki þar, sem lengst er að sækja lækni:

Enn þarf að athuga, hvernig koma á fyrir þeim héruðum, sem eru orðin svo stór, að einn læknir getur ekki annað þeim, en kannske ekki það stór, að praktíserandi læknar vilji setjast þar að. Með tilliti til þessa vil ég leggja til, að till. á þskj. 64 og 72 verði felldar.