19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

53. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Frv. um það efni, sem hér liggur fyrir, var flutt á þessu þingi í fyrravetur af hv. þm. Ak. og fól þá í sér aðeins þá breyt. á gildandi l. um þetta efni, að hestamannafélaginu Létti á Akureyri skyldi veita sams konar réttindi til veðmálastarfsemi, sem það félag hafði með höndum, sem Fákur í Reykjavík hefur haft og eins sjómannadagsráðið í sambandi við kappróður, sem það hefur staðið fyrir.

Í Nd. hefur þessu frv. verið breytt þannig, að í staðinn fyrir að bæta inn í frv. réttindum til handa þessu eina félagi hafa réttindin verið gerð almenn á þann veg, að dómsmrh. eftir þessu frv., eins og það liggur nú fyrir, er heimilað að veita réttindi þeim félögum, sem hafa slíka starfsemi með höndum, ef þau uppfylla þau skilyrði, sem þarf til þess. Að öðru leyti er haldið óbreyttum ákvæðum um, að ákveðinn hundraðshluti af tekjum af þeirri veðmálastarfsemi skuli renna til ákveðinna framkvæmda, þ.e.a.s. 10% af hagnaði félaganna af veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar skuli renna til þess að gera og bæta reiðvegi og 75 % af hagnaði af veðmálastarfsemi í sambandi við kappróður sjómannadagsráðanna, er færi fram á sjómannadaginn, renni í sjóminjasafn.

Allshn. þessarar d. hefur orðið sammála um að mæla með því við hv. d., að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd., og tel ég ekki ástæðu til þess að fara um það fleiri orðum. Þetta er ekki umfangsmikið eða flókið mál, en ég vil fyrir hönd n. mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.