28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég hef ekki skrifaða ræðu eins og hv. 7. landsk. þm. hafði, og ég hef ekki skipun orða í huganum til þess að geta lokið ræðu minni á vissum tíma. En ég mun ekki teygja umr. úr hófi fram. En þar sem með jafnmörgum og óvirðulegum orðum hefur verið talað um málið af hv. þm. S.-Þ., þá er ekki hægt að sætta sig við, að í þskj. og þingtíðindum standi algerlegur rangsnúningur á því, sem menn hafa haldið fram í málinu, sem við teljum okkur skylt að halda uppi vörn fyrir.

Hv. þm. S.-Þ. hefur gert sér mjög tilrætt um þá yfirlýsingu, sem bæjarráð samþ. 9. febr., þar sem sagt var, að bæjarráð geti ekki fallizt á, að með lögum verði mælt fyrir um samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum, sem bæjar- og sveitarsjóðir einir bera kostnað af, en telur ekki óeðlilegt, að á þann hátt verði mælt fyrir um þau mannvirki, sem ríkið kostar að öllu eða nokkru leyti.

Um þessa yfirlýsingu segir, með leyfi hæstv. forseta, í bréfi, sem undirskrifað er af Geir G. Zoëga, Guðjóni Samúelssyni, Axel Sveinssyni og Herði Bjarnasyni:

„Að því er snertir umsögn bæjarráðs Reykjavíkur, þá virðist okkur þar gæta ósamræmis að því leyti, að ef samkeppni samkvæmt frv. er æskileg um mannvirki ríkisins, þá mun hún hafa sömu kosti, að því er snertir framkvæmdir mannvirkja Reykjavíkurbæjar.“

Það er alger misskilningur hjá þessum háu herrum, ef þeir halda fram, að hér sé um nokkurt ósamræmi að ræða. Bæjarráð Reykjavíkur telur ekki óeðlilegt, að ef Alþ. sýnist svo og telur rétt, þá mæli það fyrir um, að samkeppni skuli eiga sér stað um þau mannvirki, sem ríkið annaðhvort kostar eitt eða styrkir á einhvern hátt. Hins vegar telur bæjarráðið, að það brjóti algerlega á móti sjálfstjórn sveitarfélaganna, að Alþ. fari að mæla fyrir um slíkt atriði og þetta varðandi þau fyrirtæki bæjar- og sveitarstjórna, sem ríkissjóður leggur ekki einn eyri til. Okkur í bæjarráðinu þykir, sem sagt, eðlilegt, að ríkið ákveði fyrir sig og bærinn ákveði fyrir sig um þessa hluti í einstökum tilfellum, hvort slík samkeppni skuli eiga sér stað. Þess vegna er þetta alls ekki sprottið af óvild eða ótrú bæjarráðs á samkeppni þessari út af fyrir sig, heldur af því, að okkur þykir með öllu óeðlilegt og raunar óverjandi, að ríkið fari að tilefnislausu að setja slík fyrirmæli um þau mannvirki bæjarins, sem það tekur ekki neinn þátt í að kosta. — Ég veit nú, að hv. þm. S.-Þ. er nú svo greindur maður, að hann skilur þetta jafnskjótt og honum er bent á það. Og ég hef undrazt það, að hann í þingræðu sinni og þskj. skuli hafa haldið því fram, að hér væri um eitthvert ósamræmi að ræða. Og ég hef ekki fundið neina skýringu á því, að jafnskarpur maður og hann skuli hafa blandað hér svo herfilega málum sem hann hefur gert. — En ég þykist hafa séð nokkra hugarfarsbreytingu hjá hv. þm. S.-Þ. Hann, sem hefur oft haft ótrú á sérfræðingum, jafnvel í þeim efnum, sem þeirra sérfræðiþekking nær til, hann er nú farinn að trúa því, sem sérfræðingar segja um það, sem þeir hafa ekkert sérstaklega vit á, sem er alveg óskylt efni því, sem þeir eru sérfróðir í, og þess vegna hefur þessi hv. þm. nú tekið alveg ómeltan skilning þessara sérfræðinga á þessari samþ. bæjarráðs, — sem ég veit, að þegar hv. þm. athugar í ljósi þeirra skýringa, sem ég hef gefið, sér, að er ekki ósamræmi í. En það er eðlilegt, að bæjarráð Reykjavíkur mælist undan því, að Alþ. setji nokkur fyrirmæli um þetta atriði, samkv. áður sögðu.

Þá vildi ég einnig mótmæla þeim ásökunum, sem þessi sami hv. þm. hefur haft í frammi í garð bæjarstarfsmanns, húsameistara bæjarins, Einars Sveinssonar. Í þessu langa þskj., sem hér er lagt fram, er farið óvirðulegum orðum um þennan starfsmann bæjarins. Því er fyrst haldið fram, að hann hafi átt einhvern þátt í ákvörðunum, sem bæjarráð eitt hefur tekið og ber fulla ábyrgð á. Þessi starfsmaður átti ekki kost á að gera till. um það efni, og því síður hafði hann um það ákvörðunarvald. Þess vegna er algerlega óviðeigandi að blanda honum í það mál að nokkru leyti. — Þar að auki segir hér á bls. 5 í hinu langa kveri, sem hv. þm. S.-Þ. hefur nú gefið út sem skýringar á þessu máli, með leyfi hæstv. forseta: „Þó er vafasamt, hvort nokkur húsameistari í landinu hefði meiri þörf en Einar Sveinsson til að fá innfluttar hugmyndir úr þeirri andlegu atvinnubótastarfsemi, sem frv. átti að koma í fast horf.“

Ég vil algerlega mótmæla því, að slík ummæli séu höfð um starfsmann bæjarins. Hér er ekki einu sinni um að ræða starfsmann ríkisins, þannig að hann heyri undir eðlilega gagnrýni eða aðfinnslur, sem um starfsmenn ríkisins hljóta að koma fram á Alþ., heldur er hér um að ræða mann, sem starfar í þágu Reykjavíkurbæjar, sem ekki heyrir undir Alþ. á neinn hátt. (JJ: Þessi skoðun er alveg í samræmi við frv., sem gerir ráð fyrir, að allir þessir menn fái gróða af hugmyndainnflutningi, svo að þetta er ekki móðgun sérstaklega.) Hv. þm. S.-Þ. kemst ekki hjá því, að hann fer hér móðgandi og óviðeigandi orðum um þennan starfsmann, sem ekki heyrir undir neina ríkisstarfsgrein, og hefði þess vegna mátt vænta þess, að hann og hans embættisheiður fengi að vera í friði fyrir áreitni hér í hv. þd. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að Alþ. fengi að bera fram gagnrýni gagnvart þeim ríkisstarfsmönnum, sem einstakir hv. alþm. telja á einhvern hátt aðfinnsluverða. En ég mótmæli því, að það sé tekið upp á hæstv. Alþ. að hnýta í starfsmenn, sem ekki heyra undir Alþ. fremur en starfsmenn einstaklingsfyrirtækja og aðrir slíkir. Og allra sízt er viðeigandi að fara slíkum ummælum um starfsmenn, sem viðurkenndir eru fyrir að vera ágætir starfsmenn, og í þessu tilfelli er um óvenjulega hugmyndaríkan húsameistara að ræða, sem hefur unnið mörg ágæt verk og hefur gert skynsamlegar og hagkvæmar till. um skipulag bæjarins og teiknað margar ágætar byggingar og nú síðast, en ekki sízt, ágætan skóla, sem verið er að byggja á Melunum, sem ég veit, að hv. þm. S.-Þ. verður hrifinn af fyrir frábært útlit og kosti. (JJ: Ég hallast að Guðmundi Ásbjörnssyni.) Ég treysti svo góðvild og skilningi hv. þm. S.-Þ., þegar hann sér þessa byggingu, sem ég er sannfærður um fyrirfram, að er með ágætum. Af því að hér er um óvenju góðan og samvizkusaman starfsmann að ræða, þar sem Einar Sveinsson er, vil ég mótmæla því eindregið, að hann skuli hafa orðið fyrir hnjóðsyrðum í þessum umr. Annars þarf út af fyrir sig kannske ekki að furða sig svo á því. Því að þótt hv. þm. S.-Þ. hafi lagt langa vinnu í þetta plagg, hefur honum skotizt yfir margt. Mér er sagt, að hann fari þar mörgum orðum um Jakob Gíslason, sem hvergi hefur hér við sögu komið. En það mun vera allt annar maður, Jakob Guðjohnsen. Það væri ekki svo fráleitt, eins og hv. þm. Barð. lagði til, að málið fengi frekari athugun, þar sem eftir svo mikla athugun, sem átt hefur sér stað um það, skuli hafa getað komið fram slíkar villur og misskilningur eins og lýsir sér í áliti hv. þm. S.-Þ. Hinu verð ég að mótmæla hjá hv. þm. Barð., að almennt sé ekki óhætt að láta mál fara til menntmn. þessarar hv. d., vegna þess að mér sýnist, að sú n. hafi með mörg mál farið svo, að hún hafi tekið vinsamlega og vel á þeim og afgr. þau með skarpleik og miklum skýringum, þannig að það megi segja um þá hv. n. eins og sagt var um merkan brezkan stjórnmálamann, að það verði hvert mál stórt, sem þeir í hv. menntmn. koma nærri. Og þó að málin séu ekki stór í sjálfu sér, þá hefur þessum hv. nm. tekizt um mörg mál að láta þau vaxa æði mikið í meðförunum.

Um málið sjálft vil ég svo segja örfá orð og taka fram, að mér sýnist, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, sé ekki sérstaklega mikilsvert, — ég verð að segja það. Og ég álít, að ástæðulausar séu þær miklu umr., sem um það hafa orðið. Samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum hefur oft reynzt vel og á oft fullan rétt á sér. En ég vil eindregið halda fram, að það séu nokkrar byggingar hér í bænum, sem, þegar allt kemur til alls, séu meiri bæjarprýði heldur en Sjómannaskólinn. Og ég tel a. m. k., að útlit bæjarins, innra skipulag, hvernig því skuli hagað, muni hljóta að hvetja menn til þess að efna meir til samkeppni um hugmyndir heldur en áður hefur átt sér stað. Hitt er svo annað mál, að ég hefði haldið, að ríkisstj. hefði næga heimild til þess að koma slíkri samkeppni fram, ef hún telur þörf á. Þess vegna verð ég að segja að mér sýnist ekki brýn þörf á því fyrir ríkisstj. að fá þetta frv. samþ. Og þess vegna sé ég ekki annað en að það eina, sem sjálfsagt væri í sambandi við dómnefnd um hugmyndir, sé, að það væri til ákveðin n. til þess að dæma um hugmyndirnar, svo að það þyrfti ekki hverju sinni að deila um það, hvernig sú n. skyldi skipuð. Og ég treysti sérfróðum mönnum, sem hafa sagt mér um kosti þess fyrirkomulags. En það er erfitt að koma slíkum n. saman oft á tíðum.

En um það atriði í frv., að dómn. útbúi útboðsskilmálana, þá virðist mér sem hún muni ekki starfi sínu vaxin, ef hún er ekki fær um að dæma verkið, ef hún undirbýr ekki skilmálana. Það má telja það kost fyrir ríkisstj. að hafa slíka heimild og að dómn. sé til. En ég treysti hæstv. ríkisstj. fullkomlega til að nota þessa heimild í hófi, og ég mæli með því, að hún verði veitt, ef hæstv. menntmrh. óskar þess.