17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Ég er hv. 2. þm. S.-M. sammála um það, að umr. um tekjuöflunarfrv. stj. skuli bíða, þangað til það verður lagt fyrir deildina. Ég skil ekki fullkomlega, hvað hv. þm. á víð, þegar hann talar um skatta, sem lagðir séu á almenning. Það, sem hér um ræðir, kemur fyrst og fremst á stórútgerðina, heildsala og iðnaðinn.

Hið eina, sem komið gæti til mála að kalla álögur á almenning, er hækkun á sykurvörum, kaffibæti, tóbaki og gosdrykkjum.

Þetta eru að nokkru leyti óþarfavörur, og þeir, sem vilja neyta þeirra, eru þá ekki of góðir að greiða þetta.

Það er bæði gagnslítið og ástæðulaust að taka hér upp umr. um fjárhagsáætlunina.

Ef ástandið verður svipað og það var á þessu ári, þá er áætlunin ekki óvarleg, og ef ekki verða ófyrirsjáanlegar breytingar, þá mun hún standast. Það er rétt, að mörgum útgjöldum er haldið utan við áætlunina, eins og gert var 1943.

Mér er ekki fullkomlega ljóst, á hverju hv. þm. byggir hrakspár sínar. Ef hann byggir þær á því, að breytingar eigi sér stað á þessu tímabili, þá er hann miklu vitrari en við hinir.

Hitt er nær sanni, að þær aukatekjur, sem ég taldi, muni ekki nægja til að mæta þeim útgjöldum, sem sleppt er á áætluninni, en slík svartsýni kom ekki fram frá honum við áætlun síðasta árs, og gætir þar nokkurs ósamræmis. Þá sagði hv. þm., að áformað væri að éta upp þá sjóðseign, sem til var síðasta ár. Það er ekki rétt með farið, að ríkisstj. geri ráð fyrir að éta þetta upp. Ég benti einungis á, að ef í harðbakka slægi, þá er þetta til. Ég viðurkenni það, að ríkissjóður þurfi að eiga mikla sjóðseign. Hv. þm. veit af eigin reynslu, hvers virði það er, og ég vildi sannarlega ekki lenda í sömu sporum og hann varðandi það atriði.

Ég held, að ríkisstj. sé ekki ámælisverð fyrir það, að hún vill stilla skattaálögunum í hóf. Ýmsum mun finnast, að nú sé nóg komið, þótt vitanlega sé gott að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Þá held ég, að ég hafi svarað öllu, sem ástæða er til og til mín var beint.