17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Ég get ekki neitað því, að mér finnst það nálgast það broslega, þegar einn aðalforustumaður þeirrar stefnu, sem leitt hefur til þess ástands í verðlagsmálum í landinu, sem nú er, stendur upp og heldur hrókaræður um, að núv. ríkisstj. á fjórum mánuðum sé ekki búin að lagfæra það, sem aflaga hefur farið í þessum málum á undanförnum árum, að miklu leyti fyrir forgöngu hans og hans flokks. Það er ekki núv. ríkisstj., sem átti upptökin að því, að byrjað var að borga þessar uppbætur, sem borgaðar eru nú og Alþ. og ríkisstj. og aðrir stynja undir. En ríkisstj. hafði gefið ákveðið loforð um það, að á þessu ári skyldi enn verða reynt að standa undir þessum álögum. Og þau loforð ætlar hún sér ekki að svíkja, heldur standa við þau. Og það verður e.t.v. tækifæri til að tala um það í sambandi við annað frv. hér síðar.

Hv. 2. þm. S.-M. fór að reyna að færa þeim orðum sínum stað, að þær skattaálögur, sem hér er um að ræða, legðust að mestu leyti á almenning í landinu. Hann minntist á tvennar álögur, sem hér eru ekki til umr., hækkun símagjalda, sem tilkynnt var í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Og mér kom ekki í hug, að hann ætti við það, þegar hann talaði um hækkaðar áiögur í sambandi við þetta frv. Hinar álögurnar voru tekjuskattsviðaukafrv., en þær álögur lenda ekki, svo að neinu nemi, á öðrum en þeim, sem hafa yfir 30 þús. kr. í tekjur. En það er ekki allur almenningur, sem hefur það. — Svo nefndi hv. 2. þm. S.–M. nokkuð af gjöldum samkv. frv. því, sem hér er til umr., og drap þá á stimpilgjald og lestagjald. Um stimpilgjaldið er það að segja, að það er ekki hægt að segja, að það lendi á öllum almenningi. Ég skal játa, að svo hátt stimpilgjald, sem hér er um að ræða - það hefur verið hátt og verður enn hærra með þessu álagi — það getur undir einstökum kringumstæðum komið illa við, en það eru undantekningar. Það má kannske segja, að það verki að einhverju leyti sem hemill á fasteignaverðið að því leyti, að fasteignir verði seldar lægra verði sem stimpilgjaldinu nemur. En ég sé ekki, fyrst og fremst, að hægt sé að telja slíkt álögur á almenning, og ekki heldur, að stór hætta stafi af því fyrir þjóðfélagið, þó að einhver hemill sé lagður á verð fasteigna, eins og það er orðið. Hins vegar eru lestagjöldin svo lág, að það er blátt áfram hlægilegt að tala um þau í þessu sambandi. Þau eru samtals um 60 þús. kr. á ári. Og þó að þau séu sett í 120 þús. kr. á ári, hver getur hugsað sér, að þau gætu verkað nokkuð gagnvart almenningi um að auka erfiðleika? Það mundi koma fram sem lækkaður hagur hjá þeim, sem vöruflutning annast, og er ekki hægt að telja, að nein hætta stafi af því. — Um viðskiptagjaldið, sem ég ætla annars ekki að ræða hér nú, er það að segja, að það mætti til sanns vegar færa, að ef það ætti að vera áframhaldandi gjald frá ári til árs, mundi það enda með því, að það lenti á almenningi. En það er samkomulag um það milli stj., að svo framarlega sem hún fer með völd þetta ár, beri —hún ekki fram tillögur um áframhald á þessu gjaldi. Það er kannske það eina af þessum gjöldum, sem fyrir fram er ákveðið, að ekki verði endurnýjað. Og þegar þess er gætt, get ég ekki séð, að nokkur skynsamleg rök mæli með því, að það þurfi að leggjast á vörurnar. Það er almennt talið, sem ég hygg, að sé rétt, og ég efast um, að hv. 2. þm. S.-M. treysti sér til að mótmæla því, að þeir atvinnuvegir, sem um ræðir í frv., hafi almennt búið við ágæta afkomu á undanförnum árum. Þetta gjald er mest 11/2 % af þeirri atvinnugrein, sem talið er, að borið hafi mest úr býtum á undanförnum árum, og svo 1%, sem kemur niður á öðrum rekstri. Hv. 2. þm. S.–M. hefur ekki verið fjarlægur því að leggja á skatt, sem kæmi enn tilfinnanlegar við pyngju þeirra, sem góða afkomu hafa haft, og á ég við eignaraukaskatt, sem hans flokkur hefur staðið að flutningi frv, um, þó að ég þori ekki að fullyrða, að hv. 2. þm. S.–M. hafi verið flm. þess máls. Þó hygg ég, að hann hafi verið meðmæltur því. Sá skattur hlyti að takast beinlínis af eign. Þetta viðskiptagjald gæti undir einstöku kringumstæðum orðið að takast af eign. En þá standa sakir glöggt með reksturinn, ef hann þarf að gera það. Það sjá þó allir, að hér er miklu skemmra gengið en í þeim till., sem flokksmenn hv. 2. þm. S.-M. hafa borið fram viðkomandi eignaraukaskatti, svo að það er ekki hægt að bera það neitt saman. En í frv. eru skýr ákvæði um það, að gjaldið er óheimilt að leggja á vörur, og það er enn fremur óheimilt að draga frá þann skatt við ákvörðun skatta á tekjur, sem miðast við það, að þessir atvinnuvegir hafa á undanförnum árum haft svo góða afkomu, að þeir þoli þetta tiltölulega lága gjald.

Mér er ljóst, að margir verða óánægðir og mörg mótmæli og rök verða send fram gegn þessum skattaálögum. En hv. 2. þm. S.-M. ætti að þekkja það, að það eru vandfundnir tekjustofnar, sem er ekki hægt að færa jafnvel nokkuð góð rök á móti. —

Annars þótti mér vænt um, að hv. 2. þm. S.–M. mun hafa komið auga á einhverjar aðrar tekjuleiðir, sem honum þykja heppilegri, og efast ég ekki um, að hv. þd. fái að heyra um þær á sínum tíma.

Það þýðir náttúrlega ekki fyrir okkur að karpa lengur um útlit fyrir tekjuhalla á þessu ári, vegna þess að það veltur á atvikum, sem okkur hv. 2. þm. S.-M. og mér eru ókunn, hvort hann verður eða ekki. Ég hef látið það í ljós áður og endurtek það, að ef ekki verða neinar ófyrirsjáanlegar breyt. á atvinnurekstri landsmanna út á við eða inn á við, eru ekki líkur fyrir, að tekjuhalli verði á þessu ári. En komi þær breyt., er augljóst, að svo getur farið. Og satt að segja er ég ákaflega hræddur um, að ekki verði fram hjá því stýrt, hvenær sem „reaktionin“ kemur, að einhver tekjuhalli komi.

Hv. 2. þm. S.-M. breiddi sig talsvert út yfir það, að ekki væri neitt ætlað til hinnar margumtöluðu nýsköpunar. Ég veit ekki, hvort ~á hv. þm. var því sjálfur fylgjandi, þegar það var rætt sérstaklega, að ríkið tæki það á sínar herðar og ástæða væri til að veita fé úr ríkissjóði til þess að kaupa tæki, sem ráðgert er að flytja inn í landið. Ríkisstj. hefur gengið út frá því, að nýsköpunin kæmi til með að hvíla á herðum einstaklinga fyrst og fremst og að ríkið yrði fremur hjálpandi heldur en beinn aðili í þeim málum.