17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég ætlast varla til þess, að hæstv. forseti leyfi okkur að halda áfram með þessar umr. miklu lengur nú.

Út af því síðasta, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, vil ég leyfa mér að benda honum á það, að það var verk hans og flokks hans, að kaupgjaldið og verðlagið slitnaði í sundur, sem er svo undirrót þess ástands í fjármálum landsins, sem við nú þurfum að berjast við. Ef þetta tvennt hefði ekki verið slitið í sundur, heldur hefði verið fundið hlutfall milli þessa tvenns, sem hefði verið látið gilda, og það nógu snemma, er hæpið, að við hefðum þurft að lenda í slíkum dýrtíðarógöngum sem orðið hefur. — Auk þess veit hv. 2. þm. S.–M., að hann og flokkur hans hefur beitt sér fastast fyrir því, að farið var inn á uppbótafyrirkomulagið, auk þess sem hann og flokkur hans hafa jafnan staðið fast á móti því, að samtök yrðu innan Alþ., sem gætu valdið straumhvörfum í þessum efnum, þ.e.a.s. um stjórnarmyndun.