28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, er landbúnaður okkar kominn í það horf — og má gera ráð fyrir, að verði enn frekar, þegar stundir líða, — að ein mesta nauðsyn hans er tilbúinn áburður. Það er líka kunnugt, að ekki er annars völ en að kaupa tilbúna áburðinn, sem framleiðslan þarf á að halda, frá öðrum löndum.

Margir, sem um málið hafa fjallað, hafa á undanförnum árum gert sér vonir um, að takast mundi að framleiða áburð hér á landi og fá hann með lágu verði. — Um mál þetta hafa verið fluttar nokkrar till., og jafnvel frv. á undanförnum árum, en nú fyrst liggur hér fyrir á þskj. 314 frv. frá fyrrverandi ríkisstj. um að lögbinda, að þessi verksmiðja verði reist svo fljótt sem kostur er. Landbn. hefur haft þetta mál til meðferðar og farið í gegnum þau skjöl og þær áætlanir, sem gerðar hafa verið í þessu máli, og mælir n. öll með því, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum. Hins vegar er því ekki að leyna, að um leið og n. hafði kynnt sér áætlunina um þetta mál, varð hún fyrir miklum vonbrigðum af því, hvernig horfir um málið, eins og sakir standa. Í fyrsta lagi byggist fyrirtækið á því, að allan stofnkostnað verður að borga, án þess að hægt sé að gera ráð fyrir rekstrartekjum fyrir vexti og afborganir. Samkv. áætlun amerísks sérfræðings er stofnkostnaðurinn áætlaður rúmlega 7 millj. kr., en í þeirri áætlun er mörgu sleppt, svo að gera má ráð fyrir, að kostnaðurinn verði aldrei undir 10 millj. kr. Þar fyrir utan er þess að geta, að sérstök virkjun er nauðsynleg, eða að minnsta kosti samband við raforku á komandi árum, til þess að hægt sé að koma áburðarverksmiðjunni á fót og reka hana svo að við megi una. Nú er ekkert rafmagn til þessarar framleiðslu. Hér þarf sennilega að tryggja það, áður en farið er í framkvæmdir á þessu sviði, að það verði athugað mjög nákvæmlega og rækilega, að þetta fyrirtæki geti borið sig, þannig að áburðurinn verði ekki dýrari en samsvarandi áburður var.

Landbn. flutti hér öll brtt. við nokkrar greinar frv., en það eru frekar útskýringabreytingar en verulegar efnisbreytingar. Þó er þess að geta, að í fyrstu brtt. á þskj. 547 er nokkuð nánar skýrt en í fyrstu gr. frv., hvaða áburðartegundir skuli framleiða, að aðallega skuli miða við köfnunarefni, sem sé blandað með vatni. Samkvæmt síðustu upplýsingum virðist þetta vera framkvæmanlegt, þótt svo hafi ekki verið talið fram á síðustu ár. Með þessu móti ætti að vera auðveldara en ella að koma þessari framleiðslu á. Í annarri brtt. er það tilgreint, að væntanlegur framkvæmdastjóri þessa fyrirtækis skuli hafa verkfræðilega menntun, og geri ég ráð fyrir, að við það hafi enginn neitt að athuga. Í þriðju brtt. er athugað nokkru nánar, hvernig takmarka skuli útsvar á þetta fyrirtæki, þegar til kemur. Samkv. ákvæðum frv. er það hugsanlegt, ef ekki verða miklar tekjur hjá fyrirtækinu, að allar nettótekjur þess megi taka í útsvar. Þess vegna vill n. takmarka þetta nánar, þannig að útsvar megi aldrei nema meiru en 50 % af nettótekjum, þótt miðað sé við 1/2 % af kostnaðarverði framleiðslunnar, eins og segir í frv. Þetta eru þær brtt., sem n. öll flytur. Auk þess flytja 3 nm. nánari brtt., sem 2 nm. hafa ekki getað fallizt á, þeir hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf. Í raun og veru er aðallega um eina brtt. að ræða, og hún er á þá leið, að ríkisstj., er falið að tryggja raforku til þessa fyrirtækis og láta rannsaka nákvæmlega og gera áætlanir um stofnkostnað og rekstrarkostnað þess, áður en verksmiðjustjórn sé kosin.

Aðrar brtt. frá þessum 3 nm. eru raunverulega afleiðing þessarar brtt. og byggjast auðvitað á því, að við teljum nauðsynlegt, áður en til framkvæmdanna kemur, að tryggt sé, að hér sé vel um búið og að farið sé inn á heppilegustu leiðina, sem völ er á á þessu sviði, því að ef ráðizt yrði í að reisa þetta fyrirtæki og útkoman yrði sú, að áburðurinn yrði dýrari en erlendur áburður, eins og nú er háttað um ýmsar hérlendar vörur, ekki sízt iðnaðarvörur, yrði þetta fyrirtæki byrði á landbúnaðinum, í stað gagns og heilla. Þess vegna er það mjög nauðsynlegt að okkar áliti, að þetta sé rækilega rannsakað, áður en til framkvæmdanna kemur. Eins og sakir standa, er augljóst mál, að ekki er hægt að hefja framkvæmdir, fyrr en lokið er þeim framkvæmdum í raforkumálum, sem gera það mögulegt, að þetta fyrirtæki sé reist.

Ég sé ekki ástæðu til þess að sinni að fara út í þetta miklu nánar, en geri ráð fyrir, að þeir nm., sem eru andvígir brtt. okkar, sem flytjum þetta bráðabirgðaákvæði um að fela ríkisstj. að láta rannsaka og undirbúa verkið sem bezt, geri grein fyrir afstöðu sinni, og fæ ég þá tækifæri til að svara röksemdum þeirra.