28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2519)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það eru ekki mörg atriði í ræðu hv. þm. Mýr., sem ég þarf að fara orðum um, en það er hins vegar mikill misskilningur hjá honum, er hann sagði, að bráðabirgðaákvæðið í brtt. okkar í meiri hl. þýddi það sama og að vísa málinu frá, því að það þarf ekkert að tefja framgang þess. Það, sem um er að ræða, er það, að við viljum tryggja, að hæstv. ríkisstj. undirbúi málið eins og nauðsynlegt er, áður en ráðizt er í framkvæmdir, og álítum óþarfa að fara nú þegar að kjósa framkvæmdastjóra fyrir fyrirtæki, sem engar líkur eru til, að hægt sé að reisa á næstu árum, því að það er augljóst mál, að ekki verður hægt að reisa þessa verksmiðju, fyrr en búið er að ráðast í stórkostlegri framkvæmdir í raforkumálum þjóðarinnar, umfram það, sem nú er. Hér er einnig um það að ræða, að við, sem flytjum þetta bráðabirgðaákvæði, treystum betur hæstv. ríkisstj. til þess að undirbúa þetta mál en væntanlegum framkvæmdastjóra, sem á að taka að sér þessar framkvæmdir, þegar þar að kemur, enda hefur ríkisstj. betri aðstöðu til þess.

Viðvíkjandi því, er hv. þm. Mýr. lét orð falla um, að hann vissi ekki, á hvaða sviðum við værum samkeppnisfærir, ef við værum ekki öruggir án frekari rannsókna í framleiðslu þessa áburðar, eins tilkostnaðarlítil og hún væri, skulum við vona, að þetta sé rétt, en hins vegar er engin vissa fyrir þessu eins og sakir standa. Byggist þetta á því, að sú hefur orðið reynslan, einmitt um áburðarframleiðslu, að hún þarf að vera í mjög stórum stíl til þess að geta borið sig, en áætlun Rosenblooms er enn þá engin trygging fyrir því, að jafnlítil framleiðsla eins og þarf til þess að fullnægja áburðarþörfum okkar þjóðar, sé samkeppnisfær við hinar stærri verksmiðjur. — Við þekkjum söguna um norsku áburðarverksmiðjurnar, sem við höfðum mikil viðskipti við; þær komust í strand og urðu að ganga í bandalag við þýzku verðsmiðjurnar, af því að framleiðslan var svo lítil, að hún borgaði sig ekki. Við skulum vona, að þetta reki sig ekki á hér, þótt fyrir því sé engin vissa. — Það þarf því að rannsaka þetta mál mjög rækilega, áður en til framkvæmdanna er snúið. Samkv. áliti Rosenblooms, sem er í grg. fyrir þessu frv., er miðað við, að framleiðslan verði 3150 smálestir á ári, og miðað við þá framleiðslu yrði framleiðslukostnaðurinn 109% dýrari en ef verksmiðjan framleiddi 6000 smálestir á ári. Ef við útfærum þetta dæmi þannig, að framleiðslukostnaðurinn vaxi um meira en helming við það, að framleiðslan sé helmingi minni en á öðrum stærri „partíum“, getum við ekki verið vissir um, hvað við höfum hér tryggan grundvöll til þess að byggja á, og þess vegna þarf að leiða það í ljós, að við getum orðið samkeppnisfærir við aðrar þjóðir.

Ég verð að segja það, að mér þykir það ekki glæsileg byrjun fyrir iðnfyrirtæki, eins og hér er gert ráð fyrir, ef grundvöllurinn á að vera sá, að ríkissjóður verður að gefa allan stofnkostnaðinn, til þess að fyrirtækið geti orðið samkeppnisfært við erlenda framleiðslu, eða geti borið sig.

Þótt hér sé um að ræða upphæð, sem mönnum vex ef til vill ekki í augum núna, þá eru 10 millj. kr. talsverð upphæð, og vildi ég miklu fremur, ef um það tvennt væri að velja, að þessar 10 millj. kr. yrðu lagðar í rafmagn út um land, því að það er lífsskilyrði, ekki aðeins fyrir landbúnaðinn, heldur fyrir landið allt, heldur en þótt áburðarverksmiðjan þyrfti að bíða um nokkurra ára skeið. Áburðurinn er að vísu nauðsynlegur, en við eigum heldur að leggja féð í það, þar sem nauðsynin er mest, og í þessu tilfelli ætti það að ganga fyrir öllu að hefjast handa um að koma rafmagni út á meðal almennings um allt land. Það varðar líf íslenzkra sveita, hvort þetta megi takast á næstu árum, og ef það tekst ekki, er augljóst að íslenzkar sveitir halda áfram að fara í auðn, en það gera þær hins vegar ekki, þótt við þurfum að kaupa erlendan áburð í nokkur ár í viðbót eða reistur verði grundvöllur að þessu fyrirtæki einu árinu fyrr eða síðar. Í öllum iðnfyrirtækjum og verksmiðjum er rafmagnið mest virði, og þess vegna er þörfin mest, að byrjað verði á þeim málum. — Við, sem fylgjum hæstv. ríkisstj., álítum, að það sé fullkomlega forsvaranlegt að fela henni undirbúning framkvæmda sem þessara, þótt stjórnarandstæðingar séu á annarri skoðun og vilji fela þær sérstakri n.

Að öðru leyti held ég, að ekki sé nauðsynlegt að fara fleiri orðum um ræðu síðasta hv. þm. Hann játar það, að samkv. þeim gögnum og álitsgerðum, sem hér liggja fyrir, sé ekki hægt að sjá með vissu, hversu tryggt er að þetta fyrirtæki muni borga sig, þótt við vonum allt hið bezta í þeim efnum. Hér er því ekki nema um eitt ágreiningsatriði að ræða, og það er, hvort kjósa skuli verksmiðjustjóra nú þegar og láta hann undirbúa framkvæmdir þessa máls eða fela hæstv. ríkisstj. undirbúning þess.