28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

119. mál, áburðarverksmiðja

Sveinbjörn Högnason:

Ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að stuðningsmenn ríkisstj. skuli rísa öndverðir gegn hinu fyrsta máli nýsköpunarinnar, með því að bera fram eyðileggingartillögu. Því að það vita allir, að með því að vísa máli til ríkisstj. er verið að tefja fyrir því. Í áætlun nýsköpunarinnar stendur, að fé skuli varið til byggingar áburðarverksmiðju. En nú segja hv. stuðningsmenn ríkisstj., að fara þurfi fram áætlun um, hvort verksmiðjan geti borið sig. Þetta er nokkuð nýtt hljóð, að rannsaka þurfi fyrst, hvort hluturinn beri sig. Það er búið að spyrja oft, hvenær megi kaupa skip, og sjálfur forsrh. nýsköpunarinnar spurði, hvenær vissa væri fyrir því, að þau bæru sig. Nú munu vera líkur til, að áburðarverksmiðjan beri sig betur en flest annað í nýsköpuninni, og það er vitað mál, að höfuðatriði fyrir landbúnaðinn er, að nægur áburður sé fyrir hendi. Ég undrast, að hið fyrsta atriði nýsköpunarinnar skuli mæta slíkri andstöðu frá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Um það, hvort rétt sé að fela ríkisstj. þetta, er það að segja, að það er ekki vani ríkisstj. að undirbúa mál, sem fagþekkingu þarf við, og það er ekki ætlun ríkisstj. að framkvæma nýsköpunina. Hún hefur látið kjósa hér nýbyggingarráð, en það hefði eins mátt segja, að eðlilegast hefði verið að fela henni það starf. Mér virðist því, ef rétt kjörnum mönnum með fagþekkingu væri falið að vinna að þessu máli, að þá væri því komið í betri hendur. Því er séð, að ýmsir þröskuldar ætla að verða í vegi fyrir nýsköpuninni, og þá fyrst og fremst frá hennar eigin mönnum og með fullu samþykki hæstv. ríkisstj., sem vill ekki framkvæmd málsins, en ekki frá kyrrstöðumönnunum og þeim, sem sagt er, að vilji engar framkvæmdir. En þetta kemur okkur ekkert á óvart, við vitum, að þessi mikla plata frá hæstv. forsrh. er ekkert annað en lýðskrum, en eigi ætluð til framkvæmda. Hún er ætluð til þess að spila hana upp aftur og aftur, til þess að halda hjörðinni saman, og sést það bezt á því, hverjar undirtektir þessa máls voru. Ég fyrir mitt leyti á von á, að þannig verði það í hverju máli.