28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. (Jón Pálmason):

Það er ekki rétt, að við höfum borið fram brtt. okkar að undirlagi ríkisstjórnarinnar. Við gerðum það algerlega á eigin ábyrgð. Það lítur út fyrir, að menn vilji gera sem mest úr því, að hér sé um mikinn ágreining að ræða, en þetta er ekki rétt. Við teljum einungis, að bezt sé að undirbúa málið, svo sem unnt er, með þeim kröftum, sem ríkisstj. hefur yfir að ráða. Um spádóma hv. þm. V.-Sk. er það að segja, að það eru bara hrakspár og óþarfa slettur gegn okkur, og ég mótmæli því, að við í landbn. séum að vinna gegn þessu máli. Viðvíkjandi því, að Samband íslenzkra samvinnufélaga og Búnaðarfélagið kosti þessa verksmiðjunefnd, þá tel ég það ekkert betra en að ríkið gerði það. — Þá sagði hv. þm.V.-Sk., að það væri nýtt hljóð, að hlutur þyrfti að bera sig. Það er ekkert nýtt hljóð, það er og hefur verið og verður höfuðatriði. En ég segi það, að ætti ég að velja um rafmagnið og verksmiðjuna, þá kysi ég heldur rafmagnið.

Hv. 2. þm. N.-M. var að tala um, að sér virtist það mótsögn, að ríkisstj. ætti að ákveða verksmiðjunni stað.

Þetta er engin mótsögn. Nú liggur fyrir að rannsaka, hversu koma eigi fyrir dreifingu rafmagnsins um landið. Þegar til framkvæmda verður snúizt, mundi verksmiðjustjórnin verða komin, og á hún, með samþykki landbrh., að ákveða, hvar verksmiðjan verður reist.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um rangsnúning þeirra, sem talað hafa hér á móti.