28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

119. mál, áburðarverksmiðja

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að hér væri enginn stór ágreiningur. Allt og sumt, sem þeir vildu, væri, að málið væri betur undirbúið, áður en ráðizt yrði í framkvæmdir. Mér skildist á þessum hv. þm., að þeir hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Mýr. væru ekki menn til að flytja þessa brtt., en ég hygg, að þeir vilji alls ekki vera við hana riðnir, þeir telja, að nokkur ágreiningur sé enn um þetta mál.

Ég er sannfærður um, að þeir vilja kjósa verksmiðjustjórnina til þess að hún vinni að framgangi málsins. En allir hv. þm. vita, að þessi till. er flutt í þeim eina tilgangi að slá málinu á frest.

Ég vil spyrja þá, sem vilja, að ríkisstj. sé falinn undirbúningur málsins, hvenær þeir álíta, að nægilegur undirbúningur hafi verið gerður, hvenær hefjast skuli handa um byggingu verksmiðjunnar.

Ætlast þeir til þess, í mótsögn við forseta ríkisstj., að þannig undirbúningur sé hafður um öll mál, öll fyrirtæki, að rekstur þeirra sé tryggður fyrir fram? Ef þeir ætla að fylgja þessari stefnu, eru þeir í ósamræmi við hæstv. forsætisráðherra. Hann telur, að framkvæmdirnar þoli engan drátt, að ráðast beri í þær þegar í stað og peningarnir skuli dregnir út úr rottuholunum, ef þess gerist þörf. Eru þessir þm., sem flytja þessa brtt., í andstöðu við ríkisstjórnina? Ef ekki er þörf að athuga, hvort skip, sem keypt er, ber sig, er ekki frekar þörf á athugun í þessu máli. Rannsókn erlendra sérfræðinga liggur fyrir, og þeir eru allir á því máli, að þetta sé mjög álitlegt fyrirtæki.

Ég vildi mælast til þess við stuðningsmenn þessarar brtt., að þeir fylgi því jafnrækilega fram, að svipaður undirbúningur fari fram um önnur mál. Verður gaman að sjá, hversu hnarreistir þeir ganga fram til framkvæmda á nýsköpuninni. Þar verða þeir víst framar en afturhaldsseggirnir, sem eru á móti nýsköpuninni, en vilji þeirra mun koma í ljós við atkvæðagreiðsluna.