28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

119. mál, áburðarverksmiðja

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hv. 5. landsk. (BG) hefur nú lýst því yfir, hvað vakir fyrir þeim hv. þm., sem flytja þessa brtt., sem sé að tefja framgang málsins, í stað þess að breiða yfir, hvað fyrir þeim vakir, og er það drengilegra af honum. Og ég þakka honum fyrir að gefa þessa yfirlýsingu, því að þá er enginn í vafa um, að hverju bráðabirgðaákvæðið stefnir, þar sem það er yfirlýst af einurð hv. flm. En ég hygg, að hann komist í nokkrar ógöngur, þegar hann var að tala um, að það væri gott að fresta afgr. frv. og athuga málið betur, t. d. hvort slík verksmiðja gæti borið sig, og athuga það meir en fyrir liggur í frv. Hv. þm. sagði, að verksmiðjur í Ameríku, sem nú framleiða sprengiefni, geti framleitt áburð eftir stríð og e. t. v. miklu ódýrara, og mér skilst, að þær verksmiðjur séu út um allan heim. Það getur vel verið rétt athugað. En vill þá ekki hv. þm. athuga það, að eftir stríð koma skip, ekki hundruð, heldur þúsund og e. t. v. tugir þúsunda, á fiskimiðin, bæði hér við Ísland, vestur við Ameríku, í Norðursjó, í Hvítahafi, og alls staðar verður þarna gert út í samkeppni við fiskiskip okkar. Mundi þá ekki líka vera skynsamlegt að fresta ýmsum af þeim framkvæmdum, þar sem slíkt er fyrirsjáanlegt, að um mikla samkeppni verður þar að ræða, og mundi þá ekki vera miklu skynsamlegra að fresta ýmsu af þeim framkvæmdum, þar sem fyrirsjáanlegt er, að verðið hlýtur að falla að stríðinu loknu. Mér kæmi það ekki á óvart, þó að það yrði miklu geigvænlegra fyrir íslenzku þjóðina en hitt, þó að verksmiðjur taki til starfa erlendis. En það er einmitt það, sem við höfum haldið fram að þyrfti að athuga í sambandi við nýsköpunina og þau miklu áform í þeim efnum.

Hv. 5. landsk. sagði, að við gætum ekki án skipa verið, en við hefðum þó hjarað án þess að hafa áburðarverksmiðju. Jú, íslenzka þjóðin hjarði nokkuð lengi í margar aldir, án þess að stunda verulega sjóinn, en einn af fyrstu landnámsmönnunum tók upp á því að sleppa landbúnaðinum og stundaði sjóinn, en hann hélzt ekki við í landinu, og ég hygg, að það mundi jafnan fara svo fyrir þjóðinni, ef hún sneri bakinu við gæðum landsins og hætti að rækta jörðina og gera sér hana undirgefna. Hæstv. forseti sagði, að ég mætti ekki fara langt út í þessa sálma, en ég ætla, áður en ég sezt niður, að benda hv. d. á, að aldrei hefði ég trúað því, að ég mundi þurfa, þegar rætt er um fyrsta atriði nýsköpunar ríkisstj., að verja ríkisstj. gegn harðorðum árásum frá stuðningsmönnum hennar. Stuðningsmenn stj. tala mikið um það í sambandi við byggingu þessarar áburðarverksmiðju, að hlutirnir þurfi að bera sig, en það er einmitt það, sem við andstæðingar stj. höfum haldið fram, og væri víst hollt fyrir stuðningsmenn ríkisstj. að hafa það hugfast, og ég vona, að þeir geri það, svo að ekki verði eins auðvelt fyrir ríkisstj. að leiða þá í gönur.