28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. (Jón Pálmason):

Það gætti nokkuð mikils útúrsnúnings í ræðu hv. þm. V.-Sk., sem ég vildi gera stutta aths. við. Það er ekki annað en útúrsnúningur hjá hv. þm., þegar hann segir, að hv. 5. landsk. hafi gefið yfirlýsingu um það, að okkar tilgangur væri sá að tefja málið. Hv. 5. landsk. sagði það aldrei, enda er ekki um slíkt að ræða. Hér er bara um það að ræða, að við viljum, að málið verði betur athugað áður en til framkvæmda kemur í því. Hér þarf því ekki að vera með neina sleggjudóma um það, að við séum í þessu sambandi að vinna gegn hagsmunum bænda, það er ekki annað en framsóknarfullyrðingar. Það er þeirra gamli vani, ef allt er ekki samþ., sem þeir vilja, að þá er sagt, að verið sé að vinna á móti hagsmunum bænda. Það er sitt hvað að vera á móti máli eða vilja, að það fái sem beztan undirbúning. Og það er engin mótsögn, þó að við viljum fá eitthvað, sem getur borgað sig í sambandi við framleiðsluna. Við þurfum t. d. að fá sláttuvélar, rakstrarvélar, skurðgröfur og fleiri nauðsynlegar vélar til þess að rækta með landið og til þess að byggja það upp, hvað sem öllu öðru líður, það er lífsnauðsyn fyrir þjóðina og landbúnaðinn. En landbúnaðurinn getur vel lifað og dafnað fyrir því, þó að kaupa þurfi eitthvað af áburði frá öðrum löndum nokkuð lengur, og það miklu betur en þótt við færum að byggja áburðarverksmiðju, sem rekin væri með tapi.

Nú er ekki hægt að reisa hana strax, vegna þess að ekki er enn grundvöllur fyrir því frá raffræðilegri hlið. Það eru litlar líkur fyrir því, að þjóðin fái skip og verksmiðjur til þess að geta veitt fisk og síld og unnið úr þeim verðmætar vörur. Við vonum allir, að þetta beri sig, enda er það stefna ríkisstj. að reka þann atvinnurekstur, sem getur gefið sem mestan arð og mesta atvinnu. Hitt er annað mál, hvort það borgar sig betur að reisa þessa verksmiðju en einhverjar aðrar verksmiðjur.

Þá er eitt atriði í þessu máli, en það er starf þessa ameríska sérfræðings. Það liggur hér fyrir bréf frá Ásgeiri Þorsteinssyni verkfræðing, sem er fulltrúi Sjálfstfl. í rannsóknaráði ríkisins. Það sýnir nokkuð meðal annars, hvernig þessi ameríski sérfræðingur hefur unnið að málinu. Ásgeir Þorsteinsson fær að tala við þennan sérfræðing í 15 mín., enda þótt hann sé ekki búinn með sínar skýringar, og því síður að Ásgeir fengi nokkurt tækifæri til þess að gera athugasemd við nein atriði málsins. Ef þetta á að vera í samræmi við sumt annað hjá fyrrverandi atvinnumrh., þá er ekki vanþörf á því, að málið fái betri rannsókn.