28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

119. mál, áburðarverksmiðja

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil aðeins með örfáum orðum svara hv. 5. landsk. út af því atriði, sem hann lagði einna mesta áherzlu á, þ. e. hvort þessi verksmiðja gæti borið sig og borið uppi viðlíka verð á áburði. Eins og ég skýrði frá í upphafi máls míns, þá er það, miðað við það verð, sem sérfræðingurinn hélt að það væri í niðurstöðu síns útreiknings, því sem næst 2 kr. kg. af köfnunarefni, en það verð, sem hann var seldur fyrir á erlendum markaði síðastliðið vor, var 3 kr. kg. Þetta er sá verðmunur, sem var á hinu erlenda köfnunarefni nú og því verði, sem hann var áætlaður. Nú hefur að vísu áburður hækkað ákaflega mikið, meira en margt annað, hann hefur allt að því þrefaldazt frá því, sem hann var fyrir stríð, en þau verkalaun, sem hann er reiknaður með, hafa meira en þrefaldazt, þannig, að ef maður gerir ráð fyrir, að verðlag komist í svipað horf eftir stríð og nú, lækki hlutfallslega allt, þá á niðurstaðan að verða nokkuð svipuð eftir stríð. Þm. taldi það sönnun þess, að Rosenbloom gerði ráð fyrir, að verksmiðjan borgaði sig, að í frv., sem ríkisstj. lagði fyrir, er ætlazt til, að meiri hlutinn af því fé, sem þarf til stofnunar þessarar verksmiðju, verði lagt fram af sjálfu ríkinu endurgjaldslaust og ekki ætlazt til þess, að verksmiðjan borgi vexti og afborganir af þessu fé. Það er rétt, að til þess er ætlazt, en það er ekki sönnun þess, að verksmiðjan geti ekki borið það. En hitt sjá allir, að ef verksmiðjan er þannig byggð upp, þá er aðstaðan miklu betri og þá er það tryggt, að áburðurinn gæti orðið miklum mun ódýrari en ella, og sú framleiðsla, sem byggist á þessum áburði, gæti þá orðið ódýrari, og það gæti orðið búhnykkur fyrir ríkið að leggja þetta fram, ef það getur.

Í þeim plöggum, sem hér liggja fyrir frá Rosenbloom, er rafmagnsverðið áætlað miklu hærra en Rosenbloom áætlar, að hægt sé að selja rafmagn fyrir í hinum nýju virkjunum, sem hann gerði áætlun um, að aðeins á verksmiðjunni muni 10% á ársframleiðslunni, þannig að verksmiðjan aðeins á rafmagninu fari langt í það að standa undir vöxtum og afborgunum af henni, ef sú leið væri farin.

En það, sem kom mér til þess að standa upp, voru hin mjög óviðfelldnu ámæli, sem hv. þm. A.-Húnv. lét falla hér áðan í garð þess manns, sem hefur rannsakað þetta mál fyrir ríkisstj., og álasaði honum fyrir það, að hann leyfði ekki Ásgeiri Þorsteinssyni að tala við sig nema nokkur orð og ryki svo úr bænum. Og hv. þm. gaf í skyn, að allt það verk, sem hann vann fyrir hæstv. ríkisstj. og þjóðina, hafi verið svipað þessu. Nú veit ég meira samt sem áður en út í þessi plögg, því að það hefur maður, sem var viðstaddur, sagt mér, að sérfræðingurinn hafi gert þær athugasemdir við till. Ásgeirs, sem hann lagði fyrir sérfræðinginn, en Ásgeir var ekki viðbúinn að svara þeim aths., sem þar komu fram, þá þegar. En svo vildi óheppilega til, að áður en þessu samtali er fyllilega lokið, er kallað á manninn og hann á að stíga upp í flugvél, sem á að flytja hann vestur um haf. Þannig að það er langt frá því, að hann hafi ætlazt til, að þessi dvöl hans yrði svona stutt, eins og raun varð á. Þessi skilaboð komu fyrr en hann hafði búizt við, og hann ætlaði að hafa nægan tíma til þess að tala við Ásgeir. Ég álít það þess vegna ekki sanngjarnt, að vera hér með dylgjur um manninn og verk hans hér, þótt svona illa tækist til. En Ásgeir hefur svarað í þessu nál., og það liggur þá fyrir. Ég vildi aðeins geta þessa út af ummælum hv. þm. A.-Húnv.