05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Eins og þetta mál liggur fyrir hér í þessari hv. d., þá ætti hvorki að þurfa að vera um það langar né harðar umr. Bæði meiri og minni hl. landbn. telja sig vera málinu fylgjandi. Minni hl. vill sýna fylgi sitt við málið m. a. með því að ráða hv. d. til að samþ. þetta frv., því að þótt frv. sé ófullkomið, þá telur minni hl., að málinu ætti að vera nokkur stuðningur í, að um þetta efni yrðu sett l. Meiri hl. telur sig líka fylgjandi málinu. Ég vil ekki orða það þannig, að hann vilji sýna fylgi sitt við málið með því að leggja það til, að frv. sé fellt, en eins og orðað er í nál. meiri hl., vill hann láta undirbúa málið betur en orðið er og fella frv., svo að málinu verði ekki óhagræði að flausturslegri lagasetningu.

Þetta er ekki spánýtt mál hér á Alþ., 10 ár eru síðan byrjað var að ræða um, að reist yrði verksmiðja á Íslandi til þess að vinna tilbúinn áburð. Á þessum 10 árum hafa verið gerðar ýmiss konar athuganir. Um skeið var hér danskur verkfræðingur að athuga aðstöðuna. Hann taldi það mundi borga sig að koma upp áburðarverksmiðju. Innlendir menn hafa verið að rannsaka þetta mál og nú síðast 1943 var ráðinn hingað amerískur verkfræðingur, sem átti að hafa sérstaklega þekkingu á þessum málum, og hann hefur ráðið Íslendingum eindregið til að reisa slíka verksmiðju. Nú er það ekki svo, að mikið sé í þessu frv., sem kæmi til framkvæmda nú þegar, eiginlega aðeins það að velja fyrirtækinu stjórn, og hún á svo að hafa það verkefni að vinna að framgangi málsins.

Hér er talað um að vísa málinu til nýbyggingarráðs. Í nýbyggingarráði er einn maður, sem sérstaklega má telja, að hafi vit á þessu máli, búnaðarmálastjórinn. En hann hefur nú þegar látið í ljós þá skoðun, að þetta frv. eigi að samþykkja. Nýbyggingarráð mun hafa í mörg horn að líta, og þótt ég ætli ekki að spá neinu um það, að nýbyggingarráð vinni ekki gagnlegt verk, þá finnst mér samt, að það muni vera hægt að ofsetja þá n. Hún mun hafa mörg miklu vandasamari mál til meðferðar. Við í minni hl. landbn. höfum gjarnan viljað ákveða til bráðabirgða það, sem frv. hefur inni að halda. Hins vegar skal ég játa það, að með þeim ákvæðum hefur ríkisstj. málið eiginlega algerlega á sínu valdi og getur gert við það, hvað sem henni sýnist. Svo að þessu leytinu er lítill munur á því að samþ. frv. eins og það er eða dagskrána. Í báðum tilfellum er málinu vísað til ríkisstj. En minni hl. álítur, að málinu sé styrkur í því, að sett séu l. um það.

Nú hefur verið dregið í efa af sumum mönnum, að treysta mætti þeim áætlunum, sem gerð er grein fyrir í frv., bæði um stofnkostnað og reksturskostnað og um verð á þeim áburði, sem verksmiðjan kynni að framleiða. Ég tel mig engan mann til að skera úr um það. Ameríski verkfræðingurinn gizkaði á 7 millj. kr. stofnkostnað. Og hann gerði ráð fyrir, að verksmiðjan gæti, miðað við verðlag eins og það er nú, skilað 1 kg. af nothæfu köfnunarefni fyrir 2 kr. Það má geta þess til samanburðar, að talið er, að 1 kg. af nothæfu köfnunarefni hafi kostað árið 1944 3 kr. Ef nokkuð má treysta þessu, lítur út fyrir, að reka mætti þessa verksmiðju með hagnaði. Rétt er að geta þess, að ameríski verkfræðingurinn gerir ráð fyrir, að stofnkostnaðurinn yrði lagður fram af ríkinu, svo að framleiðslan þyrfti ekki að bera byrðar af honum.

Ég man eftir því, að hér á Alþ. var rætt um tilbúinn áburð fyrir 17 árum, á þinginu 1928. Þá var talað um það, hvort rétt væri að kynna mönnum tilbúinn áburð og örva þá til að nota hann og hvort það borgaði sig að nota hann. Eftir þessi 17 ár held ég að megi fullyrða það, að bændum og öðrum ræktunarmönnum mundi fátt þykja háskasamlegra fyrir atvinnugrein sína en það, ef ekki fengist keyptur tilbúinn áburður. Nú vita allir, að aukin ræktun er algerlega óframkvæmanleg, nema notaður sé tilbúinn áburður. Nú lítur Alþ. svo á, að það muni borga sig að koma upp áburðarverksmiðju. Ég get auðvitað ekki verið viss um það, að næstu 17 ár leiði eins greinilega í ljós, að það borgi sig að reka áburðarverksmiðju, eins og síðustu 17 ár hafa fært mönnum heim sanninn um, að það borgi sig að nota tilbúinn áburð, en ég tel það líklegt. Og það verð ég að segja, að þegar litið er á það, að hráefnið, sem á að nota, er vatn og loft og aðalrekstrarliðirnir eru vinna og rafmagn, og þegar það er einnig athugað, að landbúnaðurinn hefur fullkomlega brúk fyrir það vörumagn, sem ætlað er að framleiða, þá fæ ég tæplega skilið, hvers konar verksmiðjuiðnað við getum rekið, ef við getum ekkí rekið þennan iðnað. Ég færi þá að efast um, hvort borgaði sig fyrir okkur að draga fisk úr sjó og vinna úr því vörumagni, sem þaðan kemur.

Nú er talið, að landbúnaðurinn noti um 4 þús. tonn af tilbúnum áburði. Gert er ráð fyrir því, að verksmiðjan geti borið sig, þótt aðeins sé framleitt þetta vörumagn. En það er enginn vafi á því, að áburðarþörf landsmanna eykst mjög mikið á næstu árum, ef komið er á þeim ræktunarframkvæmdum, sem talað er um. Það er ekki ólíklegt, að þörfin tvöfaldist. Það er því ekkert vafamál, að áburðarverksmiðju á að reisa og reka. Eins og málin standa nú, ber ekki eins mikið á milli manna og sumum kann að virðast. Þess vegna er óþarfi að hafa um þetta langar umr. Allir vilja láta reisa verksmiðjuna, sumir vilja láta samþ. l. um það þegar, en aðrir vilja láta athuga málið betur áður en l. eru sett. Þessu máli horfði öðruvísi við um skeið, þá var 2 millj. kr. útgjaldaheimild á fjárl. vegna verksmiðjunnar, en nú er búið að nema það burt. Þrátt fyrir þetta álítum við í minni hl. landbn., að samþ. beri frv. óbreytt. En vegna þess að í nál. hv. meiri hl. á þskj. 965 er bent á það — og eiginlega réttilega — sem fyrstu ástæðuna fyrir rökst. dagskrá, að engin tímabundin ákvörðun sé um það í frv., hvenær verksmiðjan skuli reist, þá höfum við hv. þm. Dal. viljað setja þetta tímabundna ákvæði að nokkru leyti inn í frv. Við berum því fram brtt. á þskj. 1010, þar sem lagt er til, að aftan við 2. málsl. bráðabirgðaákvæðisins bætist: og sé þessum aðgerðum öllum lokið fyrir 1. september n.k. —

Með þessu setjum við hæstv. ríkisstj. frest, er okkur virðist hæfilega langur til þess að koma í framkvæmd þeim rannsóknum og athugunum, sem henni er ætlað að gera eftir bráðabirgðaákvæðinu, og teljum, að sá frestur sé hæfilega langur að vera því sem næst 2/3 af yfirstandandi ári.

Ég vil þess vegna f. h. minni hl. landbn. ráða hv. d. til þess að samþ. frv., þó með breyt. á þskj. 1010.