05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

119. mál, áburðarverksmiðja

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að allir geti verið sammála hv. þm. S.-Þ. um, að þetta sé mjög þýðingarmikið mál, en það veltur á miklu fyrir landbúnaðinn, að ekki sé hrapað að málinu. Ef innlendur áburður hefði ekki sama notagildi og erlendur, auk þess sem innlendur iðnaður er dýrari en erlendur, svo að hann yrði ef til vill ekki samkeppnisfær við útlendan áburð, væri illa farið. Flestir munu þeirrar skoðunar, að það beri að athuga málið sem allra bezt, áður en ráðizt er í framkvæmdir.

Sumir telja, að öllum undirbúningsaðgerðum geti orðið lokið fyrir 1. sept. 1945, og hv. þm. S.-Þ. taldi, að ekki mundi nægileg raforka fyrir hendi til reksturs verksmiðjunnar, hvorki hér né á Akureyri. Ætlast þessir menn til, að lokið verði stórfelldri rafvirkjun í þessu skyni fyrir þennan tíma? Hv. þm. Dal. telur, að framkvæmdir við verksmiðjubygginguna geti hafizt vorið 1946. Ég tel hann nokkuð bjartsýnan. Við vitum, að á meðan ófriðurinn stendur, fást ekki nauðsynlegar vélar. (ÞÞ: Það mætti byrja á grunninum). Ég ætla, að eigi muni standa svo lengi á byggingunni, en það er hægt að undirbúa verkið með því að veita til þess fé á fjárlögum og leggja fram fé til þess. Ég tel vafalaust, að fjárlagaheimildin verði notuð, svo framarlega sem fjárhagur landsins leyfir það.

Brtt. hv. þm. Dal. skiptir ekki miklu máli. Það er þýðingarlaust að setja tímaákvörðun um þetta efni. Ég mun, þótt ég leggi ekki mikla áherzlu á þetta fyrir mitt leyti, greiða atkv. á móti tillögunni.