21.02.1944
Efri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

43. mál, vitabyggingar

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef í þessu frv. lagt til, að sú breyt. yrði gerð á l. um stjórn vitamála frá 1933, að upp í þau yrðu tekin ákvæði um, að ljósviti skuli vera á Gerðhólma við Garðskaga. Ég hef borið þetta frv. fram hér á Alþ. samkv. ósk margra sjómanna á Suðurnesjum og í samráði við útvegsmenn þar syðra.

Það hefur talsvert borið á, að sjófarendur hafi kvartað undan því, að vitakerfið á Reykjanesskaga væri ófullnægjandi, sérstaklega að því er varðar siglingar út með skaganum og fyrir Garðskaga. Þessar umkvartanir eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er kvartað undan því, að ljósmagn þeirra vita, sem fyrir eru, sé mjög ófullnægjandi. Því er t. d. haldið fram um Garðskagavitann, að ljósmál hans sé svo lítið, að hann sjáist skammt að, og að ljósin í Garðinum, síðan rafljósin komu, séu svo sterk, að þau sjáist á undan vitanum, og séu því miklir erfiðleikar á að greina vitann fyrr en of seint. Það sama er að segja um Keflavíkurvitann og Sandgerðisvitann, að ljósmagn þeirra þykir ófullnægjandi. Þá hefur líka verið kvartað yfir því, að vita vantaði, þar eð þeir vitar, sem fyrir eru, hafa ekki möguleika til að lýsa upp siglingaleiðina, og þykja sérstakir örðugleikar á því að sigla inn með skaganum að sunnan. Sjómenn kvarta mjög undan því, að þetta torveldi siglingar inn, og segja þeir, að stundum þurfi þeir að taka á sig stóran krók til þess að vera vissir um, að þeir séu nógu langt undan landi, vegna þess að þeir sjái ekki siglingaljósin. Til þess að bæta úr þessu er þetta frv. fram borið, og mun rétt að taka það fram, að í umr. um þetta mál þar syðra hefur mjög mikið verið um það rætt, hvernig þessu skyldi niður raðað. Ég held, að það sé þó nokkuð einróma skoðun manna þar syðra, að þetta vitastæði, Gerðhólmi, sé mjög heppilegt. Vel má vera, að fleiri leiðir komi til athugunar, og er ég fús til þess að athuga samkomulag um það, ef til skyldi koma.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað til sjútvn., þar sem ég veit, að það fær þá ýtarlegu meðferð, sem nauðsynlegt er, að það fái, áður en það verður afgr. út úr hv. d.