09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2566)

43. mál, vitabyggingar

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta frv. til athugunar. Hefur hún sent það til vitamálastjóra og beiðzt umsagnar hans. Hefur hann gefið umsögn um málið, og er hún prentuð með nál. á þskj. 199.

Eins og fram kemur í frv., er lagt til, að reistur verði viti á Gerðhólma við Garðskaga, vegna þess að nú eru ófullnægjandi ljós á siglingaleiðinni með Garðskaga. Var tekið fram við l. umr., að þótt lagt væri til, að úr þessu yrði bætt með vita á Gerðhólma, færi því fjarri, að það væri eina leiðin, sem til greina gæti komið til úrbóta í þessu efni. Ástæðan til þess, að Gerðhólmi var sérstaklega nefndur, var hins vegar sú, að sjómenn þar syðra hölluðust einna frekast að því, að sú leið yrði valin til að leysa úr þessum vanda.

Vitamálastjóri og vitanefnd hafa athugað frv., og í umsögn vitamálastjóra kemur greinilega fram, svo að ekki verður um deilt, að siglingaljós og siglingamerki á leiðinni fyrir og inn með Garðskaga eru mjög ófullnægjandi, svo ófullnægjandi, að eitthvað verður að gera til úrbóta. Hins vegar hefur n. ekki viljað fallast á þá leið, sem upp á er stungið í frv. Er það álit n. og vitamálastjóra, að heppilegra sé að endurbyggja vitann á Garðskaga og hafa þá þann vita svo stóran og fullkominn, að viti verði óþarfur á Gerðhólma. Í því sambandi hefur vitamálastjóri lagt til við atvmrh., að á þessu ári verði veittar 140 þús. kr. af vitafé til endurbyggingar Garðskagavitans.

Sjútvn. getur fallizt á þær till., sem vitamálastjóri hefur gert um þetta, þó með því skilyrði, að viti sá, sem endurbyggður verður, verði hafður svo sterkur og ljósmagn hans svo mikið, að það sjáist langtum lengra en á vita þeim, sem til þessa hefur verið á Garðskaga, og auk þess verið bætt í þennan nýja vita sérstöku ljóshorni, sem þannig skal fyrir komið, að hægt sé að sigla eftir því fyrir boða inn með Garðskaga. Hefur sjútvn. því þótt rétt, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem mælir með því, að atvmrh. fallist á till. vitanefndar, að fyrir því verði séð, að hinn nýi væntanlegi viti á Garðskaga verði svo fullkominn, að hann geti leyst af hendi það hlutverk, sem Gerðhólmavitanum var ætlað, og í trausti þess, að vitinn verði þannig úr garði gerður, leggur n. til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá. En ef síðar kynni að koma í ljós, að hinn nýi viti leysti ekki af hendi þetta hlutverk, þá virðist nægur tími til að athuga, hvað gera skuli til að bæta úr því. Með tilvísun til þessa leggur n. til, að samþ. verði hin rökst. dagskrá á þskj. 199.