22.01.1945
Neðri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

106. mál, vitabyggingar

Sigurður Kristjánsson:

Hv. frsm., hv. þm. V-Ísf., er nú ekki viðlátinn, en málið er svo einfalt, að ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi ætlað sér að flytja neinar nýjar upplýsingar um málið, og það eina, sem um það er að segja í raun og veru, er í nál. og fskj. frá vitamálastjóra. Eins og hv. þm. er kunnugt um, hefur hv. þm. Snæf. flutt þetta mál, þar sem hann ætlast til, að innsiglingarljósin við Stykkishólm séu tekin í vital.

Vitamálastjóri er alveg samþykkur því, að ljósin séu flutt, en leggur á móti, að þessi innsiglingarljós verði tekin upp í vital., því að afleiðingin mundi verða sú, að bygging þeirra, viðhald og rekstur yrði þá fært yfir á ríkissjóð, en svo mun vera um langflesta innsiglingarvita á Íslandi, að þeir séu kostaðir af viðkomandi hafnarsjóði og tekin sérstök ljósagjöld af skipum til að standast þann kostnað. Það er ekki hægt að búast við öðru en aðrir staðir kæmu á eftir, ef þessi breyt. yrði gerð þarna og stofn- og rekstrarkostnaður færður yfir á ríkissjóð frá hafnarsjóði. N. fellst þess vegna á till. og rök vitamálastjóra og leggur á móti, eins og nál. ber með sér, að frv. verði samþ., en leggur hins vegar til, að það verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem er á þskj. 903.